Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í dag lagði Kolbrún, fyrir hönd Flokks fólksins, fram fyrirspurn þar sem spurt var útskýringa á sífjölgandi kvörtunum í garð strætóbílstjóra í kjölfar kórónuveirufaraldurs.
Þá vakti hún athygli á því að kvartanir vegna framkomu strætóbílstjóra árið 2018 voru 321 talsins en árið 2022 hafi þeim fjölgað í 560.
Hún vakti einnig athygli á því að kvörtunum vegna aksturslags hafi að auki fjölgað í garð strætóbílstjóra í kjölfar faraldursins. Þeim hafi fjölgað úr 317 í 352 milli áranna 2018 og 2022.
Þá hafi nánast daglega borist kvörtun af því tagi. Hún gagnrýnir að auki meðhöndlun Strætó bs. á kvörtunum og fyrirspurnum. Hún segist sjálf oft hafa sent fyrirspurn á fyrirtækið og aldrei fengið svör.
Kolbrún segir í tilkynningu að mikilvægt sé að kanna líðan vagnstjóra hjá fyrirtækinu og almenna ánægju þeirra. Hún vilji vita hvað veldur fjölgun kvartana í garð strætóbílstjóra þrátt fyrir þjónustustefnu Strætó.