Fótbolti

Grinda­vík vann slaginn um Suður­stranda­veginn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Grindavík vann góðan sigur í dag.
Grindavík vann góðan sigur í dag. Knattspyrnudeild UMFG/Petra Rós

Grindavík vann 3-1 sigur á Ægi í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Þá unnu Þróttarar góðan endurkomusigur gegn Gróttu.

Grindavík lagði mikið í sölurnar fyrir tímabilið í Lengjudeild karla og fékk til liðs við sig sterka leikmenn. Óskar Örn Hauksson sneri heim á Suðurnesin og ljóst að Grindvíkingar ætluðu sér ekkert nema upp í Bestu deildina.

Fyrir leikinn gegn Ægi í Þorlákshöfn í dag var Grindavík í 5. sæti, átta stigum á eftir toppliði Aftureldingar sem situr á toppnum. Ægir var hins vegar í neðsta sæti með aðeins eitt stig eftir sjö umferðir.

Símon Logi Thasaphong var maðurinn á bakvið sigur Grindavíkur í dag. Hann kom liðinu í 2-0 í fyrri hálfleik áður en Ivo Pereira Braz minnkaði muninn fyrir Ægi. Símon Logi fullkomnaði hins vegar þrennu sína snemma í síðari hálfleik og Grindavík vann 3-1 sigur.

Þróttarar komu til baka gegn Seltirningum

Í Laugardal tóku heimamenn í Þrótti á móti Gróttu. Grímur Ingi Jakobsson kom Gróttu yfir á 8. mínútu og Grótta hélt forystunni allt þar til rúmar tíu mínútur voru eftir. Þá vöknuðu Þróttarar af blundi sínum og tryggðu sér sætan endurkomusigur.

Hinrik Harðarson jafnaði metin í 1-1 á 78. mínútu og þremur mínútum síðar skoraði Jorgen Pettersen sigurmark heimamanna. Lokatölur 2-1 og Þróttur jafnar þar með Gróttu að stigum en bæði lið eru með 10 stig um miðja deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×