Innlent

Kópa­vogur tekur við allt að 101 flótta­manni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigrún Þórarinsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs hjá Kópavogsbæ, Björg Baldursdóttir, formaður velferðarráðs Kópavogs, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Sigrún Þórarinsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs hjá Kópavogsbæ, Björg Baldursdóttir, formaður velferðarráðs Kópavogs, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Kópavogur mun taka á móti allt að 101 flóttamanni samkvæmt samningi Kópavogsbæjar og stjórnvalda um samræmda móttöku flóttafólks sem undirritaður var í gær.

Níu fjölmennustu sveitarfélög landsins hafa nú undirritað samninga um samræmda móttöku flóttafólks en heildarfjöldi fólks sem samningarnir ná til er ríflega 3.300, að því er segir í tilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.

Þar segir að samræmd móttaka flóttafólks sé hugsuð fyrir þá sem hafa fengið alþjóðlega vernd á Íslandi eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og þurfa stuðning við að ná rótfestu hér á landi. Markmiðið sé að tryggja samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan fólk kemur eða hvar það sest að.

„Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð við fólk til að vinna úr áföllum og að það fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem gegnum atvinnu, nám, samfélagsfræðslu og íslenskukennslu,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×