Erlent

Valda­rán ekki ætlunin heldur að koma í veg fyrir upp­lausn Wagner

Kjartan Kjartansson skrifar
Jevgeníj Prigozhin, eigandi Wagner-hópsins, í Rostov-on-Don á laugardag. Ekki er ljóst hvar hann er niður kominn eftir að skammlífri uppreisn hans lauk.
Jevgeníj Prigozhin, eigandi Wagner-hópsins, í Rostov-on-Don á laugardag. Ekki er ljóst hvar hann er niður kominn eftir að skammlífri uppreisn hans lauk. AP/

Jevgeníj Prigozhin, eigandi málaliðahersins Wagner-hópsins, segir að markmið uppreisnar hans gegn rússneskum heryfirvöldum um helgina hafi verið að koma í veg fyrir að hópurinn væri leystur upp, ekki að ræna völdum. Hópurinn hafi stoppað til að komast hjá fyrirsjáanlegu blóðbaði.

Mikill viðbúnaður var í Moskvu um helgina þegar hersveitir Wagner-hópsins stefndu þangað eftir að þær sölsuðu undir sig höfuðstöðvar hersins í Rostov-on-Don. Kallaði Prigozhin eftir því að varnarmálaráðherra Rússlands og yfirmanni hersins yrði steypt af stóli. Uppreisninni lauk með samkomulagi sem Aleksander Lúkasjenka, forseti Hvíta-Rússlands, átti þátt í að koma á.

Prigozhin fullyrti að fyrir honum hafi ekki vakað að ræna völdum í Rússlandi í hljópupptöku sem hann birti á samskiptaforritinu Telegram í dag. Til hafi staðið að leysa Wagner-hópinn og aðra málaliðasveitir upp og innlima liðsmenn þeirra í rússneska herinn um mánaðamótin.

Wagner-liðar hafi ekki viljað verða að „fallbyssufóðri“ rússneska hersins í Úkraínu í ljósi þess hvernig hann hafi staðið sig í Úkraínu. Kornið sem fyllti mælinn hafi verið loftárás rússneska hersins sem hafi kostað þrjátíu Wagner-liða lífið.

„Tilgangur herferðarinnar var að koma í veg fyrir eyðileggingu Wagner og að koma réttlæti yfir þá sem gerðu mikinn fjölda mistaka í sérstöku hernaðaraðgerðinni með ófaglegum gjörðum sínum. Það var eftirspurn eftir því á meðal almennings,“ sagði Prigozhin í upptökunni að sögn Mary Llyushinu, fréttaritara Washington Post.

Þrátt fyrir að hersveitir hans hafi skotið niður þyrlur á leið sinni í átt að Moskvu fullyrti Prigozhin að Wagner-liðar hefðu numið staðar um leið og þeir mættu mótstöðu og að í blóðbað stefndi. Sókn hans hafi afhjúpað öryggisbrest þar sem hersveitir hans hafi náð að lama herinn og sækja lengra fram en rússneski herinn í Úkraínu.

Liður í samkomulaginu sem Prigozhin gerði við stjórnvöld í Kreml var að liðsmenn hans sem tóku þátt í uppreisninni yrðu ekki sóttir til saka. Rússneskir fjölmiðlar hafa sagt frá því í dag að Prigozhin sé enn til rannsóknar fyrir landráð.


Tengdar fréttir

Shoigu sagður hafa heim­sótt her­sveitir Rússa í Úkraínu

Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, heimsótti hersveitir landsins í Úkraínu í gær en þetta er í fyrsta sinn sem sést til varnarmálaráðherrans eftir valdaránstilraun Yevgeny Prigozhin og Wagner-liða um helgina.

Wagner-liðar fá sakar­upp­gjöf og Prigoz­hin fer til Bela­rús

Yevgeny Prigozhin, leiðtogi Wagner málaliðahópsins, hefur lýst því yfir að uppreisninni sé lokið. Þetta kemur fram í ávarpi sem hann sendi frá sér nú síðdegis. Hann segist hafa náð samkomulagi við Alexander Lúkasjenka, einræðisherra Hvíta Rússlands, um að binda enda á uppreisnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×