Fótbolti

Aron Elís heim í Víking

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Elís Þrándarson er genginn í raðir uppeldisfélagsins.
Aron Elís Þrándarson er genginn í raðir uppeldisfélagsins. Jonathan Moscrop/Getty Images

Landsliðsmaðurinn Aron Elís Þrándarson er genginn í raðir Víkings á nýjan leik eftir átta ár í atvinnumennsku.

Aron er uppalinn Víkingur, en gekk í raðir Aalesund í Noregi  árið 2014 eftir að hafa leikið þrjú tímabil með uppeldisfélaginu. Hann lék fjögur tímabil í Noregi áður en hann færði sig yfir til OB í Danmörku árið 2020 og hefur leikið þar síðan.

Víkingur greinir frá tíðindunum á samfélagsmiðlum sínum og félagið segir að þarna sé „einn dáðasti sonur Víkings“ að snúa aftur heim.

Eins og kemur fram í tilkynningu Víkinga var þessi 28 ára gamli leikmaður valinn skærasta ungstirni efstu deildar, efnilegastur og bestur áður en hann hélt út í atvinnumennsku, ásamt því að vera markahæsti leikmaðurinn árið 2013.

Aron á að baki 54 deildarleiki með Víking áður en hann hélt út í atvinnumennsku þar sem hann lék 208 leiki í norsku og dönsku deildinni. Þá á hann einnig að baki 17 leiki fyrir íslenska A-landsliðið.

Víkingur trónir á toppi Bestu-deildar karla með fimm stiga forskot eftir 13 umferðir og ljóst að Aron Elís mun bara styrkja liðið í titilbaráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×