Forsaga málsins er afpöntun þriggja skíðaferða Ferðaskrifstofu Íslands til Ítalíu þann 28. febrúar 2020, sama dag og fyrsta tilfelli Covid-19 greindist hér á landi. Farið var fram á endurgreiðslu ferðanna í öllum tilfellum. Ferðaskrifstofan hafnaði því og vísaði í skilmála þar sem fram kom að ferðir sem væru að fullu greiddar yrðu ekki endurgreiddar. Þetta sættu umræddir viðskiptavinir sig ekki við og höfðuðu að lokum dómsmál.
Bæði Landsréttur og héraðsdómur komust að þeirri niðurstöðu að ör útbreiðsla Covid-19 sjúkdómsins á Ítalíu hafi verið þess eðlis að fyrrhugað ferðalag væri ekki öruggt. Þessar óvenjulegu og óviðráðanlegu aðstæður leiddu því til þess að viðskiptavinir áttu rétt á endurgreiðslu.
Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar, sem samþykkti að taka þrjú mál, sem tengjast endurgreiðslu skíðaferða, fyrir á grundvelli þess að úrslit málsins hefðu verulegt gildi fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem selji pakkaferðir. Dómur Hæstaréttar var kveðinn upp í dag.
Umtalsverð áhætta að halda til Norður-Ítalíu
Ferðaskrifstofa Íslands hélt því fram að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður hefðu ekki skapast fyrr en yfirvöld hefðu lagt bann við ferðalögum, sem ekki var fyrir hendi að kvöldi 28. febrúar 2020. Þá var deilt um hvað felist í ófyriséðum og óviðráðanlegum ytri atvikum (force majeure) sem kveðið er á um í lögum um pakkaferðir.
Hæstiréttur telur ótvírætt að þegar ferðin var afpöntuð hafi farsótt breiðst út á áfangastaðnum og að aðstæður hefðu bæði verið óvenjulegar og óviðráðanlegar í skilningi laganna. Ferð til Norður-Ítalíu hafi falið í sér umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði þeirra sem afpöntuðu.
Litið var til markmiðs fyrrnefndra laga sem sé að auka vernd neytenda með skýrari heimild til að afpanta ferð gegn fullri endurgreiðslu. Var ekki fallist á það með ferðaskrifstofunni að lagareglan um endurgreiðslu sé óhóflega íþyngjandi fyrir eignarrétt eða atvinnustarfsemi hans.
Voru skilyrði til að afpanta því talin uppfyllt og niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar staðfest. Var ferðaskrifstofunni auk þess gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að Ferðafélag Íslands ætti í hlut. Hið rétta er að Ferðaskrifstofu Íslands var gert að endurgreiða skíðaferðina.