Enski boltinn

Kaupir Liver­pool manninn sem kom í veg fyrir að Ís­land færi á EM?

Smári Jökull Jónsson skrifar
Dominik Szoboszlai er undir smásjánni hjá Liverpool.
Dominik Szoboszlai er undir smásjánni hjá Liverpool. Vísir/Getty

Liverpool hefur verið orðað við fjölmarga leikmenn á síðustu vikum en aðeins gengið frá samningum við Alexis Mac Allister síðan tímabilinu lauk. Nýtt nafn hefur nú dúkkað upp í umræðunni og það er leikmaður sem við Íslendingar könnumst of vel við.

Það er ekkert leyndarmál að Liverpool ætlar sér að styrkja liðið fyrir næsta tímabil. Liðið hefur nú þegar fest kaup á Argentínumanninum Alexis Mac Allister frá Brighton en liðið er hvergi nærri hætt að skoða miðjumenn og hafa fjölmargir leikmenn verið orðaðir við félagið á síðustu vikum.

Khephren Thuram, Manu Kone, Romeo Lavia, Ryan Gravenberch og Gabri Veiga eru nöfn sem hafa verið í umræðunni síðustu vikurnar og virðist sem hinn franski Kheprehn Thuram sé einna líklegastur til að flytja sig yfir í Bítlaborgina.

Blaðamaðurinn David Ornstein hjá The Athletic greinir hins vegar frá því í dag að Liverpool sé nú að skoða möguleikann á því að kaupa Ungverjann Dominik Szoboszlai frá RB Leipzig. Szoboszlai er 22 ára framliggjandi miðjumaður og hefur leikið með þýska liðinu síðastliðin tvö tímabil við góðan orðstír. 

Ornstein segir að forráðamenn Liverpool hafi hitt fulltrúa leikmannsins í vikunni en hann tekur einnig fram að Szoboszlai sé með klásúlu í samningi sínum sem gerir liðum kleift að kaupa hann fyrir 70 milljónir evra. Óljóst er hvort eða hvenær klásúlan rennur úr gildi.

Dominik Szoboszlai er langt frá því að vera einhver Íslandsvinur. Hann skoraði nefnilega sigurmark Ungverja gegn Íslandi í umspilsleik þjóðanna um sæti á Evrópumótinu sem fram fór árið 2021. Hann skoraði sigurmarkið á annarri mínútu uppbótartíma og skildi íslenska liðið og alla þjóðina eftir með brostin hjörtu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×