Íslenski boltinn

Kvennalið FH og Víkings mætast í kvöld og geta bæði stigið sögulegt skref

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lengjudeildarlið Víkings getur komist í bikaúrslitaleikinn í kvöld.
Lengjudeildarlið Víkings getur komist í bikaúrslitaleikinn í kvöld. Vísir/Diego

FH tekur á móti Víkingi í undanúrslitum Mjólkurbikars kvenna í fótbolta í kvöld og boði er sæti í sjálfum bikarúrslitaleiknum.

Það er ljóst að sigurvegarinn mun skrifa nýjan kafla sögu síns félags. Kvennalið FH og Víkings hafa aldrei komist alla leið í bikarúrslitaleikinn.

Þetta er í þriðja sinn sem FH keppir í undanúrslitum en í annað skiptið sem Víkingskonur koma svo langt. FH var í undanúrslitum 2001 og 2021 en Víkingskonur eru komnar þangað í fyrsta sinn í 41 ár eða síðan 1982.

FH er spútniklið Bestu deildar kvenna í sumar en liðið hefur sautján stig í þriðja sæti deildarinnar. FH er nýliði deildarinnar en fór ósigrað í gegnum Lengjudeildina í fyrra. FH sló út ÍBV í átta liða úrslitum keppninnar.

Víkingskonur eru í Lengjudeildinni en eru þar með fimm stiga forskot á toppnum. Víkingskonur slógu út Bestu deildar lið Selfoss í átta liða úrslitum keppninnar.

Sigurvegarinn verður tólfta félagið til að spila il úrslita í bikarkeppni kvenna í fótbolta.

Liðin sem mætast í hinum undanúrslitaleiknum á morgun, Breiðablik og Stjarnan, hafa bæði unnið bikarinn margoft. Breiðablik hefur orðið þrettán sinnum bikarmeistari og spilað tuttugu sinnum í bikarúrslitaleiknum en Stjarnan hefur unnið þrisvar í sjö bikarúrslitaleikjum.

Það verður flott umgjörð í kringum leikinn eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×