Sveitarstjórnin á Orkneyjum ætlar að taka fyrir tillögu um að kanna aðrar leiðir til að stjórna eyjunum í vikunni. James Stockan, sveitarstjóri þar, segir eyjarnar fjársveltar og vanræktar af breskum og skoskum stjórnvöldum. Eyjarnar hafi ekki notið nægilega góðs af olíuvinnslu Breta í Norðursjó sem fer að miklu leyti fram þar.
Á meðal þeirra kosta sem Orkneyingar horfa til eru bresk yfirráðasvæði á Ermarsundseyjum eins og Guernsey og Jersey og jafnvel Færeyja sem njóta sjálfstjórnar þó að þær séu undir dönskum yfirráðum. Sveitarstjórn Orkneyja hefur áður ályktað um möguleikann á aukinni sjálfstjórn, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Spyrja hvenær þau endurgreiða heimanmundinn
Annar og mögulega fjarlægari möguleiki væri að endurnýja sambandið við norræn ríki. Orkneyjar heyrðu undir Noreg og síðar Danmörku áður en þær urðu hluti af Skotlandi árið 1472. Kristján fyrsti Danakonungur lagði eyjarnar að veði fyrir heimanmundi með Margréti dóttur sinni sem giftist Jakobi þriðja Skotakonungi. Þegar Kristján reyndist ekki borgunarmaður innlimuðu Skotar eyjarnar.
„Á götum Orkneyja vindur fólk sér upp að mér og spyr mig hvenær við ætlum að endurgreiða heimanmundinn, hvenær við ætlum að snúa aftur til Noregs,“ sagði Stockan við BBC.
„Við vorum hluti af norræna konungsdæminu mun lengur en við vorum hluti af Bretlandi,“ segir Stockan.
Bresk stjórnvöld segjast engin áform hafa um að breyta stöðu Orkneyja. Bretland verði alltaf sterkara sameinað. Skoska heimastjórnin segist ætla halda áfram að styrkja eyjaskeggja.
Talsmaður norska utanríkisráðuneytisins svaraði ekki fyrirspurn Reuters um hvort að sveitarstjórnin eða bresk stjórnvöld hefðu haft samband. Málið væri breskt innanríkismál sem norsk stjórnvöld hefðu enga sérstaka skoðun á.
Fréttin hefur verið uppfærð.