Íslenski boltinn

Sjáðu Aron Elís á fyrstu æfingunni með Víkingi: Vonandi getum við unnið titlana

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Elís Þrándarson á æfingu með Víkingum í gær.
Aron Elís Þrándarson á æfingu með Víkingum í gær. Instagram/@vikingurfc

Aron Elís Þrándarson er byrjaður að æfa með Víkingum en hann er að snúa aftur til uppeldisfélagsins eftir átta ár í atvinnumennsku.

Víkingar sýndi myndband frá fyrstu æfingu Arons sem var í Vikinni í gær og þar var þessi sonur félagsins tekinn í viðtal.

„Það er bara geggjað að byrja. Það er langt síðan að maður hefur verið hérna og það er gaman að hitta strákana og byrja að æfa,“ sagði Aron Elís Þrándarson.

Hann var sáttur með fyrstu æfinguna. „Þetta var drullugaman, gott tempó og mikill fókus. Fín gæði,“ sagði Aron Elís.

Hann fær þó ekki leikheimild með félaginu fyrr en átjánda júlí og því eru enn rúmar tvær vikur í fyrsta leikinn hans í Víkingsbúningnum.

„Það er mjög spennandi og líka gott fyrir mig að fá smá tíma til að æfa og koma mér í betra stand. Danska deildin kláraðist fyrir mánuði síðan og maður er ekki búinn að æfa mikinn fótbolta. Það er því kærkomið að koma hingað og æfa,“ sagði Aron.

Aron Elís fór út í atvinnumennsku árið en hver var hans eftirminnilegasta minning frá tímanum í Víkingi.

„Það var að ná að enda í Evrópusæti áður en ég fer út. Það var gaman að skilja við uppeldisklúbbinn á þeim stað á þeim tíma. Ennþá betra að koma heim og sjá að þeir eru á enn betri stað,“ sagði Aron en á hann einhver skilaboð til stuðningsmanna félagsins.

„Halda áfram að styðja liðið og vonandi getum við unnið titlana,“ sagði Aron. Það má sjá hann á æfingunni og viðtalið við hann hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×