Erlent

Freista þess að tryggja aðild Svía í Vil­níus í næstu viku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kristersson og Biden í Hvíta húsinu í gær.
Kristersson og Biden í Hvíta húsinu í gær. AP/Evan Vucci

Joe Biden Bandaríkjaforseti tók á móti Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í Hvíta húsinu í gær, þar sem leiðtogarnir ræddu meðal aðildarumsókn Svía að Atlantshafsbandalaginu.

Kristersson sagði eftir fundinn að þeir hefðu meðal annars rætt að fundur bandalagsins í Vilníus í næstu viku væri tilvalinn vettvangur til að veita Svíþjóð formlega aðild en stjórnvöld í Tyrklandi og Ungverjalandi hafa staðið í veginum.

„Aðeins Tyrkland getur tekið ákvarðanir fyrir Tyrkland,“ ítrekaði Kristersson.

Biden sagðist hlakka til aðildar Svía og sagðist vilja ítreka að hann væri ötull stuðningsmaður umsóknar þeirra um aðild að Nató. 

Biden mun heimsækja Bretland á sunnudaginn og ferðast þaðan á ráðstefnuna í Vilníus, þaðan sem hann mun svo fara í opinbera heimsókn til nýjasta aðildarríkisins, Finnlands.

Eins og kunnugt er sóttu bæði Finnland og Svíþjóð um aðild að bandalaginu í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu. Finnar hafa þegar verið teknir inn en aðild Svía mætir enn andspyrnu, séstaklega í Tyrklandi, þar sem stjórnvöld hafa gert alvarlegar athugasemdir við afstöðu Svía gagnvart Kúrdum.

Karine Jean-Pierre, fjölmiðlafulltrúi Biden, vildi ekki svara því í gær hvort Biden hygðist eiga samtal við leiðtoga Tyrklands og Ungverjalands fyrir fundinn í Vilníus til. Hún sagði forsetann hins vegar staðfastan í stuðningi sínum við umsókn Svía.

Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands, sagði á þriðjudag að Tyrkir myndu aldrei láta undan tímapressu þegar hann var spurður um mögulega inngöngu Svía í Vilníus í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×