Marina og Pier Silvio Berlusconi, börn Berlusconi úr fyrsta hjónabandi hans, fá saman 53 prósent hlut í Fininvest, eignarhaldsfélagi auðjöfursins og stjórnmálamannsins sem lést í síðasta mánuði. Þrjú yngri börn Berlusconi, Barbara, Eleonora og Luigi, fá smærri hluti í félaginu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Eldri systkinin hafa stýrt hluta veldisins undanfarin ár. Marina hefur verið stjórnarformaður Fininvest en Pier Silvio hefur stýrt MediaForEurope, fjölmiðlahluta veldisins. Þau yngri hafa tekið minni þátt í rekstinum.
Börnin fimm lýstu því nýlega yfir að enginn einn hluthafi fengi ráðandi hlut í félaginu sem var áður í höndum föður þeirra, að sögn Reuters.
Marta Fascina, kærasta Berlusconi þegar hann lést, fær hundrað milljónir evra, jafnvirði tæplega 14,9 milljarða íslenskra króna, í sinn hlut. Hún er 33 ára gömul, 53 árum yngri en Berlusconi þegar hann lést. Þau voru ekki gift en Berlusconi er sagður hafa talað um hana sem eiginkonu sína á dánarbeðinum.

Sömu upphæð fær Paulo, yngri bróðir Berlusconi. Marcello Dell'Utri, náinn ráðgjafi og viðskiptafélagi fyrrverandi forsætisráðherrans fær þrjátíu milljónir evra, jafnvirði hátt í 4,5 milljarða króna. Dell'Utri var sakfelldur fyrir tengsl við mafíuna árið 2014.
Reuters segir að erfðaskráin hafi verið í óinnsigluðu umslagi og dagsett 19. janúar árið 2022. Það var þegar Berlusconi var lagður inn á sjúkrahús í Mílanó til meðferðar. Hann þjáðist af hvítblæði. Ákvörðunin um úthlutun arfsins var tekin árið 2006 samkvæmt afriti sem fréttamenn Reuters hafa séð.
Ekki liggur fyrir hvað verður um aðrar þekktar eigur Berlusconi, þar á meðal glæsihallir hans við Mílanó, Róm og á Sardiníu. Hann átti einnig ítalska knattspyrnuliði Monza.