Breiðablik bar sigurorð á Keflavík í 12. umferð Bestu deildar kvenna í dag. Leikurinn endaði 2-0 og skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir bæði mörkin í síðari hálfleik. Úrslitin þýða að Blikar ná þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar en Valskonur, sem sitja í öðru sætinu, eiga leik til góða en þær mæta botnliði Selfoss á morgun.
Það var ljóst frá byrjun að Blikar ætluðu að sækja að krafti. Gestirnir lágu aftarlega og vörðust fimlega í upphafi leiks. Agla María Albertsdóttir átti fyrstu marktilraun leiksins á 12. mínútu eftir snarpa skyndisókn en skot hennar vinstra megin í vítateignum var varið af Veru Varis í marki Keflavíkur.
Gestirnir áttu sín færi og eftir rúmlega hálftíma leik fékk Dröfn Einarsdóttir boltann upp vinstri vænginn. Hún náði fínni sendingu inn í vítateig Breiðabliks þar sem Caroline Slambrouck var mætt en sendingin var aðeins of löng fyrir hana og skot hennar framhjá.
Undir lok leiksins varð misskilningur milli varnarmanna Keflavíkur og Veru í markinu og tók Vera boltann upp með höndum eftir sendingu frá samherja. Breiðablik fékk óbeina aukaspyrnu inn í markteignum en varnarmenn Keflavíkur náðu að koma sér í veg fyrir skot Hafrúnar Halldórsdóttur.
Það var markalaust í hálfleik og gestirnir úr Keflavík máttu vera sáttir með framvindu leiksins hingað til.
Á 51. mínútu náðu Blikar loksins að brjóta ísinn. Hafrún Rakel Halldórsdóttir hóf sóknina þegar hún lék sér að leikmönnum Keflavíkur á miðjum vellinum. Agla María Albertsdóttir fékk síðan boltann á vinstri vængnum og kom með hnitmiðaða sendingu inn í teiginn þar sem Katrín Ásbjörnsdóttir kláraði í autt markið. Afar laglegt samspil hjá Kópavogsliðinu.
Örfáum mínútum síðar fengu gestirnir frábært færi. Nánast upp úr engu náði Linli Tu, sóknarmaður Keflavíkur, að brjóta sér í leið gegnum vörn Breiðabliks og komst ein á móti Telmu Ívarsdóttur í markinu. Telma var fljót að koma út og lokaði vel á Linli, einbeitingarleysi í vörn Blika sem hefði getað kostað.
Leikmenn Breiðabliks voru komnar í gírinn og héldu áfram að pressa. Á 62. mínútu leit annað mark leiksins ljós. Agla María Albertsdóttir fékk dágóðan tíma með boltann úti vinstra megin og kom með frábæra sendingu inn í vítateiginn. Boltinn rataði á kollinn á Katrínu Ásbjörnsdóttur sem kláraði þetta snyrtilega með skalla í fjærhornið þar sem Vera Varis náði ekki til. Fimmta mark Katrínar í Bestu deildinni í sumar.
Leikurinn fjaraði smá saman út. Blikarnir héldu boltanum áfram og sóttu mikið en náðu ekki að bæta við marki. Öruggur sigur heimakvenna staðreynd þrátt fyrir rólega byrjun.
Af hverju vann Breiðablik?
Breiðablik var með yfirhöndina frá upphafi. Þær héldu boltanum vel og áttu frábæra uppspilskafla, sérstaklega í seinni hálfleik sem skilaði tveimur mörkum. Eftir að þær náðu að brjóta ísinn var sigurinn aldrei í hættu.
Hverjar stóðu upp úr?
Katrín Ásbjörnsdóttir var besti maður vallarins í dag, skoraði tvö lagleg mörk og tryggði Blikum stigin þrjú.
Agla María Albertsdóttir og Hafrún Halldórsdóttir voru ógnandi á vinstri vængnum sem skilaði sér í tveimur stoðsendingum frá Öglu Maríu.
Það er ekki hægt að sakast við markvörð Keflavíkur í dag og hefði tapið getað orðið stærra. Vera Varis átti nokkrar laglegar markvörslur og hélt Keflavík inn í leiknum lengi vel.
Hvað gekk illa?
Enn og aftur er sóknarleikur og uppspil Keflavíkur áhyggjuefni. Liðið hefur ekki skorað í þremur leikjum í röð og var sóknarleikurinn tilviljunarkenndur í dag.
Ef það má gagnrýna eitthvað í leik Blika þá var það uppsetning á föstum leikatriðum en lítið kom út úr fjölmörgum hornspyrnum liðsins.
Hvað gerist næst?
Íslenska kvennalandsliðið leikur við Finnland og síðan Austurríki um miðjan júlímánuð. Þar af leiðandi er ekki leikið í Bestu deild kvenna í dágóðan tíma.
Bæði lið eiga ekki leik í deildinni fyrr en eftir þrjár vikur eða laugardaginn 29. júlí. Blikar mæta spútnikliði FH og Keflavík mætir botnliði Selfoss.
„Þetta var þéttur og fjölmennur múr“
Ásmundur Arnarsson, þjálfari Breiðabliks, var léttur í lund eftir sigurleikinn í dag. Hann þurfti að bíða talsvert eftir fyrsta markinu en var þó ekki farinn að ókyrrast.
„Við bjuggum okkur undir þetta fyrir fram en auðvitað viljum við fá mark snemma. Við þurfum að vera undir það búin að það tekst ekki alltaf að opna. Þetta var þéttur og fjölmennur múr sem við þurftum að finna opnanir á. Við vorum full bráð á okkur að senda boltann inn í pakkann þar sem þær voru fjölmennar í fyrri hálfleik. Við þurftum að draga þær betur til, þurftum að vera klókari í færslunum og klókari hvaða valmöguleika við veljum, til dæmis sendingar á fremsta þriðjung. Við fórum yfir það í hálfleik og það gekk upp,“ sagði Ásmundur eftir leikinn.
Breiðablik á ekki leik fyrr en eftir þrjár vikur vegna landsleikja, sumir leikmenn Breiðabliks eru á leið í landsliðsverkefni á meðan aðrar fá hvíld.
„Það eru auðvitað einhverjir leikmenn sem eru á leið í landsliðsverkefni, bæði U-19 og A-landsliðið. Aðrar fá smá andrými, tökum nokkra daga í pásu því þetta er langt hlé. Það hefur verið mikið leikjaálag að undanförnu og við munum nýta tímann fyrstu dagana að hlaða batteríin og jafna okkur af smávægilegum meiðslum. Svo þurfum við að gíra okkur upp og mæta vel stemmdar þegar mótið byrjar aftur,“ sagði Ásmundur þegar hann var spurður út í næstu vikur.
Blikarnir fengu fjöldann allan af hornspyrnum í leiknum en það kom lítið sem ekkert úr þeim. Ásmundur viðurkennir að hann hefði viljað sjá meira úr föstum leikatriðum í dag.
„Við höfum ekki verið að fá mikið út úr hornunum og við fengið mikið af þeim í dag. Þetta hefur verið þema hjá okkur hvernig við ætlum að leysa úr þeim þannig við vorum ekkert sérstaklega sáttir með þetta.“
„Við höfum alltaf trú á að við skorum í þessum leikjum“
Markaskorari Breiðabliks, Katrín Ásbjörnsdóttir, var að vonum ánægð með stigin þrjú í dag á Kópavogsvelli.
„Við gerðum vel, fyrri hálfleikur var erfiður og við vissum það að þær yrðu mjög þéttar varnarlega og skipulagðar. Mér finnst við hafa gert vel að vera þolinmóðar og koma út í seinni. Við vissum að markið myndi koma. Það var gott að það kom mjög fljótlega í seinni hálfleik, vorum mjög ánægðar með það,“ sagði Katrín eftir leik.
Þrátt fyrir mikla pressu tókst Breiðablik ekki að skora í fyrri hálfleik en Katrín segir að liðið hafi ekki verið í vafa um að markið myndi detta inn á endanum.
„Við höfum alltaf trú á að við skorum í þessum leikjum. Við þurftum auka þolinmæði í dag, við höfum skorað snemma í síðustu leikjum þannig þetta var öðruvísi en við höfum alltaf trú á okkur.“
Katrín var tekin af velli stuttu eftir annað markið þegar þrennan var í augsýn. Var hún ósátt með það?
„Nei, ég er ekki ósátt með það. Ási [Ásmundur Arnarsson] ætlaði að taka mig út af í hálfleik en ég tók fyrir það. Ég þurfti að setja tvö í seinni og sýna honum að ég vildi ekki fara út af,“ sagði Katrín glottandi.