Íslenski boltinn

Alex Freyr ó­sáttur hjá Blikum og vill burt

Smári Jökull Jónsson skrifar
Alex Freyr í leik með Breiðablik í Lengjubikarnum í vor.
Alex Freyr í leik með Breiðablik í Lengjubikarnum í vor. Vísir/Hulda Margrét

Vefmiðillinn 433.is greindi frá því í gær að Alex Freyr Elísson, leikmaður Breiðabliks í Bestu deildinni, væri ósáttur með spiltíma sinn í Kópavoginum og vildi komast á lán frá félaginu sem fyrst.

Alex Freyr gekk til liðs við Blika að loknu síðasta tímabili en hann er uppalinn Framari og lék 20 leiki með liðinu í Bestu deildinni í fyrra.

Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Blika í október síðastliðnum en hefur fengið fá tækifæri hjá Íslandsmeisturunum og aðeins komið við sögu í fjórum leikjum í Bestu deildinni og tveimur í Mjólkurbikarnum.

Í frétt 433.is kemur fram að nokkur lið séu áhugasöm um að fá Alex Frey til sín þegar félagaskiptaglugginn opnast en hann var lykilmaður í liði Fram í fyrra.  Í samtali við Vísi staðfesti Alex Freyr að hann væri kominn með grænt ljós frá Breiðabliki að ræða við önnur félög. Hann hefur nú þegar hafið viðræður við nokkur lið.

Alex Freyr var hvorki í leikmannahópi Blika í sigrinum á Fylki í gær, né þegar liðið féll úr leik í Mjólkurbikarnum gegn KA fyrr í þessari viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×