Handbolti

Alexander dregur fram skóna og spilar fyrir Valsmenn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Alexander mættur í rauðu treyjuna.
Alexander mættur í rauðu treyjuna. mynd/valur

Silfurdrengurinn Alexander Petersson hefur mjög óvænt dregið skóna niður úr hillunni og ætlar sér að spila í Olís-deildinni í vetur.

Valsmenn tilkynntu nú síðdegis að Alexander hefði skrifað undir eins árs samning við félagið.

Alexander er orðinn 43 ára gamall en hann lagði skóna á hilluna fyrir ári síðan eftir glæstan feril.

Hann spilaði um 200 landsleiki fyrir Ísland og var í silfurliðinu á ÓL í Peking árið 2008 og einnig í liðinu sem vann bronsverðlaun á EM 2010.

Þessi magnaði leikmaður hóf feril sinn hér á Íslandi með liði Gróttu/KR en átti svo afar farsælan atvinnumannaferil þar sem hann lék með stórliðum á borð við Flensburg, Füchse Berlin og Rhein-Neckar Löwen.

Í tilkynningu Valsmanna segir að Alexander vilji enda feril sinn á Íslandi og verður afar áhugavert að sjá hvað hann gerir í Olís-deildinni í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×