Kim Ekdahl kemur frá Svíþjóð og lék með landsliði Svía frá 2007 til 2020. Hann átti frábæran feril þar sem hann spilaði með Nantes, Rhein-Neckar Löwen og París Saint-Germain. Hann hafði tvívegis lagt skóna á hilluna áður en þeir fóru endanlega þangað árið 2021.
Í frétt sænska miðilsins Sydsvenskan kemur fram að Ekdahl hafi haldið til Hong Kong til að ganga menntaveginn en á einhvern ótrúlegan hátt endaði hann sem þjálfari karlalandsliðsins.
Ekdahl var að leika sér í handbolta á æfingasvæði skólans þegar háskólaliðið kom og var honum í kjölfarið boðið að æfa með liðinu hefði hann áhuga. Ekdahl sló til og þannig komst hann að því að einn leikmanna skólans væri í landsliðinu.
Nafnið og ferillinn gerði það að verkum að handknattleikssamband Hong Kong réð Ekdahl sem þjálfara karlalandsliðsins til skamms tíma. Mun hann stýra liðinu á Asíuleikunum sem fram fara í Kína í september og október.
„Fórum til Japan þar sem við töpuðum fyrir háskólaliði og unnum annað. Við eigum ekki möguleika gegn liðum í hæsta gæðaflokki en þetta snýst um að byggja grunn og svo byggja ofan á það. Finna út hvernig við viljum spila sem lið,“ sagði Ekdahl að endingu við Sydsvenskan.
Þó handboltinn í Hong Kong sé ekki í hæsta gæðaflokki þá er Ekdahl tilbúinn að leggja ýmislegt á sig til að bæta hann eins og sjá má í póstinum hans á Instagram hér að ofan.