Hegerberg hefur nú spilað í tólf klukkutíma samfellt á stórmótum án þess að skora eitt einasta mark.
Hún hefur ekki skorað á síðustu fjórum stórmótum sínum með norska landsliðinu. Síðasta markið hennar fyrir Noreg á stórmóti kom á móti Fílabeinsströndinni á HM 2015 í Kanada. Norska ríkisútvarpið fjallaði um málið.
Hegerberg hopes for change in fortunes as Norway set for Swiss shake-up https://t.co/0mk9bYDIS4 pic.twitter.com/7hhZqbcOBy
— CNA (@ChannelNewsAsia) July 24, 2023
Hegerberg og félagar hennar í norska liðinu skoruðu ekki mark og töpuðu 1-0 á móti Nýja Sjálandi í fyrsta leik sínum á HM og það er því að duga eða drepast á móti Sviss á eftir.
Norskur blaðamaður bar þessa tölfræði undir framherjann á blaðamannafundi fyrir þennan annan leik norska liðsins á HM í Ástralíu og Nýja Sjálandi.
„Ég set mikla pressu á mig sjálfa að standa mig með norska landsliðinu. Það er mjög mikilvægt fyrir mig persónulega,“ svaraði Ada Hegerberg og hélt áfram:
„Það eina sem ég vil er að ná árangri með þessu liði og er ég að undirbúa mig fyrir að reyna að hjálpa liðinu sem mest. Þetta skiptir ekki máli hvort ég skora ef liðið vinnur,“ sagði Hegerberg.
Hegerberg hefur vissulega skorað 43 mörk í 77 landsleikjum með Noregi en ekkert þessara marka kom í síðustu átta leikjum hennar á stórmótum. Norska liðið hefur tapað sjö af þessum átta leikjum.
Markalausu leikirnir eru á móti Englandi (HM 2015, 1-2), Hollandi (EM 2017, 0-1) Belgíu (EM 2017, 0-2), Danmörku (EM 2017, 0-1), Norður Írlandi (EM 2022, 4-1 sigur), Englandi (EM 2022, 0-8), Austurríki (EM 2022, 0-1) og Nýja Sjálandi (HM 2023, 0-1).
Hún hefur nú spilað 733 mínútur á stórmótum án þess að skora eða síðan hún skoraði á 62. mínútu á móti Fílabeinsströndinni 15. júní 2015.