Handbolti

Carlos hættur hjá Herði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Carlos Martin Santos hefur látið af störfum hjá Herði.
Carlos Martin Santos hefur látið af störfum hjá Herði. vísir/hulda margrét

Carlos Martin Santos hefur ákveðið að hætta sem þjálfari handboltaliðs Harðar.

Ísfirðingar greindu frá þessu á Facebook í dag. Þar segir að Carlos hafi ákveðið að klára ekki samning sinn við Hörð.

Þjálfaramál Harðar hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur. ÍBV hafði samband Carlos með það fyrir augum að fá hann sem aðstoðarþjálfara karlaliðs félagsins. Forsvarsmenn Harðar gáfu upphaflega leyfi fyrir viðræðum en drógu það svo til baka og kvörtuðu til HSÍ.

Carlos vildi sjálfur komast til Eyja og var ósáttur að hafa ekki fengið að fara. Ísfirðingar fóru fram á 3,5 milljóna greiðslu fyrir Martin sem var samningsbundinn Herði. ÍBV bakkaði á endanum út og réði Roland Eradze sem aðstoðarmann Magnúsar Stefánssonar.

Í samtali við Vísi fyrr í mánuðinum sagðist Vigdís Pála Halldórsdóttir, formaður handknattleiksdeildar Harðar, vonast til að Carlos myndi snúa aftur til Ísafjarðar en kvaðst allt eins búast við því að það gerðist ekki. Og sú varð raunin.

Carlos tók við Herði fyrir fjórum árum og kom liðinu upp í Olís-deildina í fyrsta sinn 2022. Hörður fékk hins vegar aðeins tvö stig í 22 leikjum í Olís-deildinni á síðasta tímabili og féll aftur í Grill 66 deildina.

Í yfirlýsingu Harðar segir að félagið hafi reynt að sannfæra Carlos um að snúa aftur til starfa en án árangurs.

Ísfirðingar segjast virða ákvörðun Carlos og þótt hann hafi valið að vanefna samning sinn verði hann alltaf álitinn sem goðsögn hjá Herði.

Auk þess að þjálfa meistaraflokk karla hjá Herði þjálfaði Carlos yngri flokka félagsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×