Það er alltaf jafn gaman að koma í Jólagarðinn en það er ekki bara jólaandinn, sem svífur þar yfir vötnum því þar eru flottir starfsmenn og þeir eru ekki allir mjög gamlir.
„Við erum að selja vöfflur og epli, sem er mjög skemmtilegt því það er alltaf mikið að gera,” segir Tumi Tómasson, 8 ára afgreiðslustrákur í Jólagarðinum.
„Vöfflurnar eru mjög vinsælar og svo eru eplin líka mjög vinsæl hjá krökkunum”, segir Kveldúlfur Snjóki Margrétarson Gunnarsson ,13 ára afgreiðslustrákur í Jólagarðinum.
Strákarnir segjast vinna fjóra til fimm tíma á dag og það sé alltaf meira en nóg að gera og tíminn því fljótur að líða. En hvað fá þeir í kaup?
„Ég fæ bara tvö þúsund kall á mánuði,” segir Tumi.
„Ég man það ekki alveg, þetta er auðvitað fjölskyldurekið, þannig að við erum bara að vinna fyrir fjölskylduna eða þannig,” segir Kveldúlfur.
Rauðu hattarnir hjá afgreiðslufólkinu vekja alltaf athygli.
„En maður verður mjög sveittur undir þeim” segir Tumi.
Þeir sem eru í afgreiðslunni eru sammála um að það sé alltaf meira en nóg að gera í Jólagarðinum.
„Það er alltaf brjálað að gera, allt árið um kring. Hér eru allir í jólaskapi enda fær maður ekki leið á jólunum, það er ekki hægt,” segir Bjarnhéðinn Hrafn Margrétarson Gunnarsson, 15 ára afgreiðslustrákur í Jólagarðinum.