Körfubolti

Njarð­vík bætir við sig danskri lands­liðs­konu sem þekkir Ís­land vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilie Sofie Hesseldal fagnar hér bikarmeistaratitli með Skallagrími þegar hún lék síðast á Íslandi árið 2020.
Emilie Sofie Hesseldal fagnar hér bikarmeistaratitli með Skallagrími þegar hún lék síðast á Íslandi árið 2020. Vísir/Daníel Þór

Danska körfuboltakonan Emilie Sofie Hesseldal hefur ákveðið að snúa aftur til Íslands en hún hefur náð samkomulagi um að spila með Njarðvík á komandi tímabili í Subway deild kvenna.

Hesseldal er ekki aðeins dönsk landsliðskona heldur hefur hún orðið tvisvar danskur meistari eftir að hún yfirgaf Ísland síðast vorið 2020.

Hesseldal hefur spilað bæði með IK Eos í Svíþjóð og í Ástralíu á þessu ári eftir að hafa yfirgefið AKS Falcon sumarið 2022, þá sem tvöfaldur meistari tvö ár í röð.

„Hesseldal þekkir íslensku deildina eftir að hafa leikið með Skallagrím þar sem hún hjálpaði þeim að verða bikarmeistarar og þá var hún einnig á meðal bestu leikmanna deildarinnar þetta tímabilið,” sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, í viðtali við heimasíðu Njarðvíkur.

Hesseldal var með 17,0 stig, 13,8 fráköst og 4,2 stoðsendingar að meðaltali í leik neð Skallagrími tímabilið 2019-20.

Hesseldal er mjög reyndur leikmaður sem hefur reynt fyrir sér í Danmörku, Portúgal, Íslandi og Svíþjóð eftir að hún lauk háskólanámi.

Hún hefur verið frákastahæsti leikmaður deildarinnar í öllum deildum þar sem hún hefur leikið og var leikmaður ársins í dönsku deildinni 2022 og í tvígang valin besti leikmaður úrslitanna í Danmörku.

Hesseldal er fjórði erlendi leikmaður kvennaliðs Njarðvíkur því áður hafði félagið samið við Tynice Martin frá Bandaríkjunum, Andela Strize frá Króatíu og Ena Viso frá Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×