Erlent

Úkraínu­menn halda á­fram á­rásum sínum utan landa­mæranna

Eiður Þór Árnason skrifar
Myndskeið sem birt var í dag sýnir dróna nálgast rússneska tankskipið á Svartahafi.
Myndskeið sem birt var í dag sýnir dróna nálgast rússneska tankskipið á Svartahafi. Ap

Árás sem gerð var með úkraínskum dróna á eitt stærsta olíutankskip Rússa er sú nýjasta í röð árása þar sem úkraínski herinn hefur notast við ómönnuð tæki til að hæfa rússnesk skotmörk bæði af sjó og úr lofti.

Dróni sem er sagður hafa borið 450 kílógrömm af TNT-sprengiefni gerði árás á skipið Sig á Svartahafi skömmu fyrir miðnætti, að sögn heimildarmanns innan úkraínsku öryggisþjónustunnar. Sprengingin skildi eftir sig gat á vélarrúmi skipsins við vatnslínuna og kepptist ellefu manna áhöfn við að stöðva innflæði vatns, að sögn rússneskra yfirvalda. Að endingu hafi sjór hætt að flæða inn í skipið.

CNN greinir frá þessu og hefur eftir sjóflutningastofnun Rússlands að engum hafi orðið meint af og  tankskipið hafi ekki verið að flytja olíu þegar dróninn lenti á skipinu. Úkraínskir embættismenn staðhæfa að einhverjir hafi slasast í áhöfn og að tankskipið hafi borið olíu fyrir rússneska herinn.

Atvikið átti sér stað einungis fáum klukkustundum eftir að úkraínskir drónar voru notaðir til að gera árás á mikilvæga flotastöð í strandborginni Novorossiysk við Svartahaf þar sem finna má eina stærstu vöruflutningahöfn Rússa. Dróninn hæfði þar rússneskt skip en einnig var notast við fjarstýrða sjálfsprengibáta.

Árásir Úkraínumanna þar sem notast er við ómönnuð loftför hafa færst í aukanna á síðustu vikum. Hafa þær reglulega verið gerðar á rússnesku yfirráðasvæði og meðal annars í höfuðborginni Moskvu.


Tengdar fréttir

Gerðu árás á flotastöð og skemmdu herskip

Úkraínumenn réðust á rússneska flotastöð nærri Novorossiysk við á Svartahafi í nótt og virðast hafa valdið skemmdum á herskipi. ­Litlir fjarstýrðir sjálfsprengibátar voru notaðir til árásarinnar en Rússar segjast hafa grandað þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×