KA er eina liðið sem öruggt er að spilar úrslitaleikinn en KA-menn standa í ströngu þessa dagana vegna góðs árangurs síns í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Eftir að hafa slegið út andstæðinga frá Wales og Írlandi mætir KA belgíska stórliðinu Club Brugge í tveggja leikja einvígi í 3. umferð. Fyrri leikurinn er ytra á fimmtudaginn og sá seinni í Úlfarsárdal 17. ágúst, sem hefði verið níu dögum fyrir áætlaðan bikarúrslitaleik samkvæmt fyrri áætlun. Ef KA kemst áfram mætir liðið Osasuna frá Spáni 24. og 31. ágúst.
Á vef KSÍ segir að vegna góðs árangurs KA í Sambandsdeildinni hafi því verið ákveðið að færa leikinn.
Andstæðingur KA í úrslitaleiknum verður annað hvort KR eða Víkingur R. en þau lið mætast loksins í undanúrslitaleik á miðvikudaginn í næstu viku, eða 43 dögum eftir að KA sló út Breiðablik í hinum undanúrslitaleiknum. Leiknum var frestað vegna Evrópumóts U19-landsliða.
Úrslitaleikur Mjólkurbikars karla hefur verið spilaður í október síðustu tvö ár en ákveðið var að færa hann framar. Hann var síðast spilaður um miðjan september árið 2019. Öll þrjú skiptin stóðu Víkingar uppi sem sigurvegarar.
Á föstudagskvöld fer fram úrslitaleikur Mjólkurbikars kvenna en þar mætast Víkingur og Breiðablik, á Laugardalsvelli.