Fyrr í dag sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra að nýju lögin væru að virka sem skyldi. Leitað var viðbragða hennar við máli flóttafólks sem var gert að yfirgefa húsakynni Embættis ríkislögreglustjóra í Hafnarfirði í dag. Mikil geðshræring greip um sig og sögðust flóttakonur, sem höfðu verið þolendur mansals, ekki eiga í önnur hús að venda.
Sema Erla Serdar stofnandi hjálparsamtakanna Solaris var spurð út í orð ráðherra í kvöldfréttum Stöðvar 2:
„Það fer eftir því hver ráðherra telur að tilgangur laganna sé. Það sem við höfum séð síðustu daga, afleiðingarnar af þessum lögum eru að heimilisleysi meðal flóttafólks mun aukast. Það er verið að dæma fólk til sárafátæktar og gera það enn berskjaldaðra gagnvart ofbeldi og misnotkun. Ef það er tilgangurinn, hefur honum verið náð,“ segir Sema.
Hún segir átanlegt að horfa upp á stöðuna nú.
„Það var búið að vara lengi við þessu. Við og nánast allir sem tóku þátt í umræðunni um lögin vöruðu við því að þetta yrði ástandið sem myndi skapast og hefur núna skapast og mun halda áfram að stækka. Þetta er ekki eitthvað sem einstaklingar og samtök ráða hreinlega við. Auðvitað þarf að gera miklu meira en þetta.“
Hún biðlar til stjórnvalda að grípa inn í.
„Fólk hefur verið á götunni dögum, jafnvel vikum saman. Fólk býr hreinlega í tjaldi í skógi. Við auglýstum eftir húskosti fyrir fólk þar sem við getum hreinlega ekki horft upp á það að hér verði heimilisleysi svona mikið á stuttum tíma.
Við munum gera allt sem við getum en auðvitað verða stjórnvöld að draga í land með þetta og bregðast við. Sérstaklega með þennan hóp sem er fastur milli kerfa, fær ekki vernd, er ekki hægt að vísa úr landi og býr núna bókstaflega á götunni með ekkert á milli handanna.“