Sænska dagblaðið Dagens nyheter hefur það eftir heimildum sínum að SÄPO ætli að hækka viðbúnaðarstigið úr þremur í fjóra á skala sem nær upp í fimm. Það þýðir að ákveðin hryðjuverkaógn sé til staðar.
Ekki kemur fram hvers vegna til stendur að hækka viðbúnaðarstigið en öryggislögreglan hefur áður varað við því að Svíþjóð geti orðið að skotmarki hryðjuverkamanna vegna ítrekaðra samkoma þar sem kveikt er í Kóraninum, helgiriti múslima. Í vikunni bárust fréttir af því að hryðjuverkasamtökin al-Qaeda hefðu hvatt til árása á Svíþjóð og Danmörku.
Blaðamannafundur SÄPO á að hefjast klukkan 13:00 að sænskum tíma, klukkan ellefu að íslenskum tíma.