Englendingar eru mjög stoltir af knattspyrnukonum sínum sem hafa verið á einni samfelldri sigurför eftir að Sarina Wiegman tók við liðinu. Þær hafa gert það sem enska þjóðin hefur beðið svo lengi að karlalandsliðið geri. Karlarnir hafa alltaf klikkað en konurnar kunna þetta.
Enska knattspyrnusambandið hefur nú staðfest að styttugerð af stelpunum er í bígerð og hefur verið síðan að enska liðið tryggði sér Evrópumeistaratitilinn í fyrra.
Enska landsliðið hefur síðan unnið meistarakeppni Evrópu og Suður-Ameríku, Finalissima, og getur unnið þriðja stóra titilinn á rúmu einu ári þegar þær spila úrslitaleik HM á sunnudaginn.
England mætir Spáni í úrslitaleiknum en spænska liðið hefur einnig verið á miklu skriði undanfarin ár.
Enska sambandið segir að það eigi enn eftir að hanna styttuna en að eftirminnilegar myndir frá EM komi vissulega til greina. Sambandið er líka opið fyrir öllum tillögum. Styttan verður við leikvanginn en ensku stelpurnar unnu einmitt Evrópumeistaratitilinn á Wembley.
Ensku landsliðskonurnar urðu fyrsta enska liðið í 56 ár til að vinna stórmót í fyrra og í ár eru þær fyrsta enska landsliðið í 57 ár til að komast í úrslitaleik HM.