Í tilkynningu þess efnis segir að það sé gert í framhaldi af stefnu sem mörkuð var í tilefni af tuttugu ára afmæli deildarinnar árið 2021, að leggja bæri áherslu á sjálfbærni annars vegar og nýsköpun og tækni hins vegar í kennslu við deildina.
Það hafi verið gert annars vegar með sérstökum námskeiðum á sviði sjálfbærni og nýsköpunar- og tækniréttar og hins vegar með því að flétta sjónarhorni þessara umbreytandi þátta inn í kennslu í rótgrónari greinum lögfræðinnar.
Mikil réttarframkvæmd á sviðinu
Þá segir að ein helsta áskorun nútímans snúi að áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög heimsins. Loftslagsbreytingar snerti nær öll svið mannlífsins, þar með talið orkumál, samgöngur, fjármagnsflæði, skipulagsmál, landnotkun og fólksflutninga.
Undanfarið hafi mikil áhersla verið á þróun löggjafar til að sporna gegn frekari áhrifum loftslagsbreytinga og innleiðingu á alþjóðlegum skuldbindingum en löggjöf og stefnumótun í málaflokknum byggi á umfangsmiklu alþjóðlegu samstarfi.
Auk þess hafi gríðarlegur fjöldi dómsmála verið höfðaður um allan heim til að knýja ríki og fyrirtæki til að draga úr skaðlegri losun og bregðast heilt yfir með víðtækari hætti við aðsteðjandi vanda.
Mæta kröfum bæði atvinnulífsins og samfélagsins í heild
Í tilkynningu segir að í loftslagsrétti sé fjallað um lagaumhverfi loftslagsmála hérlendis auk þess sem það sé sett í samhengi við alþjóðlegar og evrópskar reglur á sviði loftslags- og orkumála.
Þá sé farið yfir markmið og aðgerðir íslenska ríkisins á grundvelli Parísarsamningsins auk þess sem fjallað sé um stefnumarkandi og áhugaverð dómsmál sem hafa verið höfðuð gegn ríkjum og fyrirtækjum á sviði loftslagsmála.
„Ákvörðunin um að gera loftslagsrétt að skyldufagi var tekin til að mæta kröfum atvinnulífsins og samfélagsins yfirhöfuð sem í sífellt auknum mæli kallar eftir sérfræðiþekkingu um loftslagsmál í ljósi margvíslegs regluverks er snertir málaflokkinn. Með þessu teljum við að nemendur lagadeildar Háskólans á Bifröst mæti sterkari til leiks út í atvinnulífið og geti mætt áskorunum nútímans sem og framtíðarinnar,“ er haft eftir Dr. Bjarna Máa Magnússyni, deildarforseta lagadeildar Bifrastar.