Innlent

Ætla að spara sautján milljarða með ýmsum hagræðingum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Benediktsson segir að hagræðingu verði meðal annars náð með því að ráða ekki að nýju í störf sem losni. En óumflýjanlega þurfi að fara í einhverjar uppsagnir.
Bjarni Benediktsson segir að hagræðingu verði meðal annars náð með því að ráða ekki að nýju í störf sem losni. En óumflýjanlega þurfi að fara í einhverjar uppsagnir. Vísir/Vilhelm

Uppsagnir hjá ríkisstarfsmönnum er meðal aðgerða sem gripið verður til hjá stofnunum til að hagræða í rekstri ríkisins. Þá verða gjöld hækkuð á skemmtiferðaskip og fiskeldi. Allt stefnir í að staða ríkissjóðs verði hundrað milljörðum krónum betri en spáð var fyrir um í fyrra. Spara á fimm milljarða með lækkun launakostnaðar hjá ríkinu.

Þetta kom fram á blaðamannafundi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, í ráðuneytinu í dag. Gert er ráð fyrir sautján milljarða króna ráðstöfunum á næsta ári til að hægja á vexti útgjalda. Mun því koma til nokkurrar fækkunar stöðugilda í stofnanakerfinu, bæði í gegnum starfsmannaveltu og uppsagnir. Bjarni sagði að vörður yrði áfram staðinn um framlínustarfsemi, meðal annars á sviði heilbrigðismála, löggæslu, dómstóla og menntamála.

Gert er ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs í ár verði um 100 milljörðum betri en áætlað var við samþykkt fjárlaga 2023 í lok síðasta árs. Þannig verði hann jákvæður um 50 milljarða, í stað þess að vera neikvæður um sömu fjárhæð. Þá er skuldastaða ríkissjóðs sömuleiðis umtalsvert betri en áætlað var á tímum heimsfaraldursins.

25 milljarðar áfram í spítalann

Bjarni sagði fá lönd hafa vaxið hraðar út úr faraldrinum en Ísland. Efnahagsumsvif væru mikil og atvinnuleysi hið minnsta í fimm ár.

Þótt staða ríkissjóðs sé framar væntingum vilji stjórnvöld gera enn betur og endurheimta þann styrk sem hann bjó yfir fyrir faraldur, samhliða því að byggja áfram upp og verja öfluga opinbera þjónustu. Í því samhengi nefndi Bjarni nokkur stór áherslumál á borð við nýjan Landspítala sem 25 milljarðar fara í spítalann á næsta ári eins og á þessu ári.

Þá nefndi Bjarni framlög til sjúkratrygginga og rekstur hjúkrunarheimila, löggæslu, háskóla og nýsköpunarstarf, orkuskipti, umtalsverðan stuðning við uppbyggingu nýrra íbúða og nýtt barnabótakerfi.

Til að ná markmiðum um hallalausan rekstur á komandi árum samhliða þessum stóru verkefnum þurfi að koma til vel ígrunduð forgangsröðun í ríkisrekstrinum.

Lækka launakostnað um fimm milljarða

Gert er ráð fyrir 17 milljarða ráðstöfunum á næsta ári til að hægja á vexti útgjalda. Þar af er gert ráð fyrir að launakostnaður stofnana lækki um fimm milljarða króna. Bjarni fundaði með forstjórum ríkisstofnananna í gær vegna þessa.

Þá lækka önnur rekstrargjöld, á borð við ferðakostnað, auk þess sem lögð verður áhersla á hagkvæmari opinber innkaup. Nefndi Bjarni að fara þyrfti í betri og stærri útboð.

Enn fremur er aukið á aðhald innan ráðuneyta og dregið úr nýjum verkefnum. Í kynningu ráðherra var bent á að mikil tækifæri fælust í einföldun stofnanakerfisins, áherslu á stafrænar lausnir sem leiði til betri nýtingar fjármuna, lækkun húsnæðiskostnaðar í gegnum sameiginleg vinnurými, samrekstur og útboð þjónustu.

Aukin gjaldtaka á ferðaþjónustu

Samhliða þessum aðgerðum sé gert ráð fyrir tekjuráðstöfunum að svipuðu umfangi. Mestu muni þar um notkunargjöld vegna rafmagns- og tengiltvinnbifreiða, aukna gjaldtöku á ferðaþjónustu, þ.á.m. af skemmtiferðaskipum, og hækkun gjalds á fiskeldisfyrirtæki á árinu 2024. Þá verður tekjuskattur á fyrirtæki hækkaður tímabundið í eitt ár um 1% líkt og áður hefur verið boðað.

„Í atvinnulífinu er alla daga leitað leiða til að gera meira með minni tilkostnaði. Það er eðlilegt að hið sama eigi við í opinbera rekstrinum og þó staða ríkissjóðs sé langtum betri en við þorðum að vona má ekki gefa neinn afslátt af því. Ég hef fulla trú á því að góður árangur í stafvæðingu og aðrar framfarir í rekstrinum geri okkar öfluga fólki kleift að útfæra fyrirhugaðar aðgerðir vel samhliða því að bæta stöðugt þjónustu við landsmenn,“ er haft eftir Bjarna á vef ráðuneytisins. Með stafvæðingu er átt við stafræna umbreytingu.

Á næstu vikum muni ráðuneyti og stofnanir vinna að útfærslu aðgerða þannig að sett markmið um afkomu ríkisins fái staðist. Kynningu ráðherra má nálgast hér, en nánar verður farið yfir stöðu ríkisfjármála þegar fjárlagafrumvarp næsta árs verður lagt fram þann 12. september.

Fylgst var með fundinum í vaktinni á Vísi, hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×