Fótbolti

Breiða­blik óskar eftir því að KSÍ endur­skoði á­kvörðun sína varðandi frestun leiks á morgun

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breiðablik og Víkingur eiga að mætast á Víkingsvelli á morgun.
Breiðablik og Víkingur eiga að mætast á Víkingsvelli á morgun. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik hefur óskað eftir því við KSÍ að sambandið endurskoði þá ákvörðun sína að synja Blikum um frestun á leik liðsins gegn Víkingi í Bestu deildinni sem á að fara fram á morgun.

Leikur Víkings og Breiðabliks í Bestu deild karla er á dagskrá klukkan 19:15 annað kvöld á Víkingsvelli. Þegar leikurinn fer fram verða aðeins liðnir rúmir þrír sólarhringar síðan flautað var til leiksloka í fyrri leik Blika gegn norður-makedónska liðinu Struga í umspili Sambandsdeildarinnar. Seinni leikurinn í einvíginu fer fram næstkomandi fimmtudag.

Breiðablik óskaði eftir því við KSÍ snemma í síðustu viku að leik liðsins gegn Víkingi á morgun yrði frestað. Hann yrði þess í stað leikinn í landsleikjahléi Bestu deildarinnar svo liðið fengi meiri hvíld fyrir seinni leikinn gegn Struga

Í viðtali við Harald Haraldsson framkvæmdastjóra Víkinga, sem birtist á Fótbolti.net í vikunni, sagði hann að Víkingar vildu ekki spila leikinn í landsleikjahléinu þar sem leikmenn liðsins væru þá fjarverandi í landsliðsverkefnum. 

Svar barst frá KSÍ í gær vegna beiðni Breiðabliks þar sem Blikum var neitað um frestun en við frestanir sem þessar þarf samþykki beggja liða að vera fyrir hendi.

Andstæðingarnir fá vikufrí

Nú undir kvöld greindi síðan Fótbolti.net frá því að Breiðablik hefði sent beiðni til KSÍ um að ákvörðun stjórnar sambandsins yrði endurskoðuð.

Í samtali við íþróttadeild staðfesti framkvæmdastjóri Breiðabliks Eysteinn Pétur Lárusson að Blikar hefðu sent inn beiðni síðdegis í dag til KSÍ um að endurskoða ákvörðun sína. Breiðablik hafði engin viðbrögð fengið nú undir kvöld nema um að erindi Blika væri móttekið.

Fyrr í dag tók knattspyrnusamband Norður-Makedóníu ákvörðun um að fresta leik FC Struga sem átti að fara fram á morgun. Leikmenn Struga fá því vikufrí á milli leikjanna tveggja við Breiðablik. Þetta er þriðji leikur Struga sem frestað er til að auðvelda liðinu Evrópuundirbúning sinn. 

Í greinargerð sinni til KSÍ í dag vísaði Breiðablik til jafnréttissjónarmiða og óskuðu eftir að stjórn KSÍ myndi endurskoða ákvörðun sína.

Blikar geta orðið fyrsta íslenska karlaliðið til að tryggja sér sæti í riðlakeppni í Evrópukeppni nái þeir að vinna einvígið gegn Struga en síðari leikur liðanna fer fram á fimmtudag í næstu viku.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×