Erlent

Kanada gefur út við­vörun vegna ferða hin­segin fólks til Banda­ríkjanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það er hart sótt að hinsegin fólki, ekki síst trans fólki, í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna.
Það er hart sótt að hinsegin fólki, ekki síst trans fólki, í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Getty/Jeffrey Greenberg

Stjórnvöld í Kanada hafa gefið út ferðaviðvörun til hinsegin fólks sem hyggst ferðast til Bandaríkjanna. Ástæðan eru ný lög og reglur í sumum ríkjum Bandaríkjanna, sem gætu mögulega haft áhrif á hinsegin ferðalanga.

Ferðaviðvaranir af þessu tagi hafa hingað til verið gefnar út vegna ríkja þar sem hinsegin fólk sætir beinlínis ofsóknum, til að mynda Rússlandi og Úganda.

Nú hefur löggjafinn í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna hins vegar einnig gert aðför að réttindum hinsegin fólks, ekki síst trans fólks að sögn talsmanns Global Affairs Canada.

„Frá ársbyrjun 2023 hafa ákveðin ríki í Bandaríkjunum samþykkt lög sem banna dragsýningar og takmarka aðgengi trans fólks að kynstaðfestingarþjónustu og þátttöku í íþróttaviðburðum,“ sagði hann í samtali við CBC News.

Flórída og Tennessee eru meðal umræddra ríkja en í báðum ríkjum er nú bannað að fara með börn á dragsýningar og þá hefur aðgengi trans barna að meðferð vegna kynama verið takmarkaður.

Í Flórída hafa einnig verið settar reglur um notkun fornafna í skólum.

Chrystia Freeland, aðstoðarforsætisráðherra Kanada, sagði aðspurð að stjórnvöld færu að ráðum sérfræðinga hvað varðaði útgáfu ferðaviðvarana. Hún vildi ekki svara því hvort samráð hefði verið haft við stjórnvöld í Bandaríkjunum áður en ferðaviðvörunin var gefin út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×