Innlent

Sigurður Lín­dal látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Líndal starfaði lengi sem prófessor við Háskóla Íslands og gengdi einnig stöðu forstöðumanns Lagastofnunar Háskóla Íslands.
Sigurður Líndal starfaði lengi sem prófessor við Háskóla Íslands og gengdi einnig stöðu forstöðumanns Lagastofnunar Háskóla Íslands.

Sigurður Líndal, fyrrverandi lagaprófessor, er látinn, 92 ára að aldri.

Frá þessu segir í Morgunblaðinu í morgun, en Sigurður lést síðastliðinn laugardag.

Sigurður fæddist 2. júlí árið 1931 og var sonur hjónanna Þórhildar Pálsdóttur Briem og Theodórs B. Líndal. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1951 og útskrifaðist svo með BA-próf í latínu og mannkynssögu árið 1957, embættispróf í lögfræði tveimur árum síðar og svo MA-próf í sagnfræði árið 1968. Hann stundaði sömuleiðis nám við Háskólann í Kaupmannahöfn, Háskólann í Bonn og Háskólann í Oxford.

Hann starfaði sem dómarafulltrúi við embætti borgardómara í Reykjavík á árunum 1959 til 1960 og 1963 til 1964. Hann var hæstaréttarritari á árunum 1964 til 1972 og lektor við lagadeild Háskóla Íslands 1967, og svo prófessor í lögfræði á árunum 1972 til 2001.

Sigurður var dómari við Félagsdóm frá 1974 til 1980 og forstöðumaður Lagastofnunar Háskóla Íslands frá 1976 til 2001. Þá var hann forseti Hins íslenzka bókmenntafélags um áratugaskeið.

Á vef Stjórnarráðsins segir hann hafi verið formaður sérstakrar rannsóknarnefndar til að rannsaka flugslysið í Skerjafirði 7. ágúst 2000 sem starfaði frá 2002 til 2005.

Á ferli sínum stundaði Sigurður einnig ritstörf og var ritsjóri Sögu Íslands frá 1972 til 2016 og átti sæti í ritstjórn Nordisk adm­in­istrati­vt tids­skrift um árabil. Þá liggja eftir hann fjöldi ritverka um lögfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði.

Sigurður lætur eftir sig eiginkonu, Maríu Jóhannsdóttur, og tvær dætur, þær Kristínu og Þórhildi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×