Körfubolti

Kanada sendi Doncic og félaga heim og Þjóðverjar mörðu Letta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Luka Doncic og félagar hans í slóvenska landsliðinu eru úr leik.
Luka Doncic og félagar hans í slóvenska landsliðinu eru úr leik. Yong Teck Lim/Getty Images

Kanada og Þýskaland urðu í dag síðustu tvær þjóðirnar til að tryggja sér sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts karla í körfubolta. Kanadamenn sendu Slóvena heim og Þjóðverjar þurftu að hafa fyrir hlutunum gegn Lettum.

Luka Doncic, ein stærsta stjarna NBA-deildarinnar, var eins og svo oft áður atkvæðamestur í liði Slóvena í dag. Hann skilaði 26 stigum, tók fjöfur fráköst og gaf fimm stoðsendingar, en var sendur snemma í sturtu þegar hann nældi sér í sína aðra tæknivillu þegar enn var nóg eftir af fjórða leikhluta.

Það var lítið sem skildi liðin að í leik dagsins og þegar flautað var til hálfleiks að tveimur leikhlutum loknum var staðan jöfn, 50-50.

Í þriðja leikhluta dró þó í sundur með liðunum og Kanada náði mest 16 stiga forskoti í stöðunni 77-61 og aftur í 80-64. Slóvenar klóruðu í bakkann fyrr lok þriðja leikhluta, en Kanadamenn reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum ellefu stiga sigur, 100-89.

Þá vann Þýskaland nauman tveggja stiga sigur gegn Lettum fyrr í morgun og tryggðu sér um leið sæti í undanúrslitum. Lettar fengu tækifæri til að stela sigrinum með þriggja stiga skoti þegar leiktíminn var í þann mund að renna út, en af hringnum fór boltinn og 81-79 sigur Þjóðverja því í höfn.

Þjóðverjar mæta Bandaríkjamönnum í undanúrslitum, en í hinum undanúrslitaleiknum mætast Kanada og Serbía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×