Innlent

Fljótandi gufu­bað og Parísar­hjól fram­­kvæman­­legar hug­­myndir

Jón Þór Stefánsson skrifar
Á meðal hugmynda sem koma fram eru sjávarsundlaug, hugleiðsluhús, sjónaukar fyrir selaskoðun og gufubað í Nauthólsvík.
Á meðal hugmynda sem koma fram eru sjávarsundlaug, hugleiðsluhús, sjónaukar fyrir selaskoðun og gufubað í Nauthólsvík. Vísir/Sara

Stafshópur hefur sent frá sér skýrslu sem inniheldur hugmyndir og tillögur um haftengda upplifun í Reykjavík.

Á meðal hugmynda sem koma fram í skýrslunni eru sjávarsundlaug, hugleiðsluhús, sjónaukar fyrir selaskoðun og fljótandi gufubað í Nauthólsvík. Og þá er til skoðunar Parísarhjól við höfnina í Reykjavík.

Hópurinn lagði til ellefu svæði fyrir haftengda upplifun og útivist í Reykjavík. Svæðin eru Nauthólsvík, Nýi Skerjafjörður, Ægisíða, Laugarnes, Bryggjuhverfi vestur, bryggjuhverfi við Grafarvog, Viðey, Gufunes, Gorvík og Blikastaðakró ásamt Kjalarnesi. Fram kemur að mikil áhersla hafi verið lögð á aðgengismál, þannig að allir hefði aðgang að þessum mögulegu svæðum.

Segir allar tillögurnar framkvæmanlegar

Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og formaður starfshópsins, segir að allar tillögur skýrslunnar séu framkvæmanlegar og margar án mikils tilkostnaðar.

„Eftir að hafa búið erlendis og kynnst menningu við hafið er ég virkilega spennt fyrir að bjóða upp á fjölbreyttari upplifun við hafið. Þar stendur fljótandi gufubað upp úr og býður Bryggjuhverfið við Grafarvog upp á einstaka staðsetningu fyrir það,“ er haft eftir Rebekku í tilkynningu Reykjavíkurborgar um málið.

Hún nefnir einnig að aðstaða fyrir fuglaskoðun, svæði fyrir hugleiðslu og bætta kennsluaðstöðu, hvort sem er í náttúrufræði eða við siglingar, hafi staðið upp úr að hennar mati.

Í skýrslu starfshópsins er því haldið fram að tækifæri varðandi haftengda upplifun séu einnig mikil við hafnarsvæði Faxaflóahafna. 

Tekið er fram að slík aðstaða gæti eflt efnahagslega, félagslega og umhverfislega sjálfbærni á svæðinu.

Skýrsla starfshóps um haftengda upplifun og útivist í Reykjavík er aðgengileg hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×