Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar, segir í samtali við Vísi að mennirnir hafi verið handteknir vegna ráns. Þeir hafi veist að manni í bíl hans og neytt hann til að millifæra á sig fé. Hlaut hann minniháttar áverka. Grímur segir málið til rannsóknar. Hann á ekki von á því að rannsóknin muni standa lengi yfir.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga á Íslandi, gagnrýndi lögreglu harðlega eftir að myndir birtust á Vísi af handtökunni. Þar mátti sjá einn af þremur mönnunum dreginn út á nærbuxunum í handjárnum af sérsveitarmönnum og sagði Guðmundur of mörg dæmi um slíkt.
Nú var handtakan sjálf gagnrýnd. Þarna var maður tekinn út á nærbuxunum í handjárnum. Var það nauðsynlegt?
„Nei, ég er nú bara með þetta til skoðunar og kannski blasir það nú við að það hafi ekki verið nauðsynlegt. Það hefði kannski mátt gefa viðkomandi tækifæri til þess að klæða sig. Við erum bara með það til skoðunar, akkúrat þann part af handtökunni,“ segir Grímur.
Hann segist ekki hafa upplýsingar um það hvort að mennirnir hafi sýnt mótspyrnu við handtöku. Hann segir lögreglu ekki telja þá hættulega.