Innlent

Skoða að fela ÍE rann­sóknir á líf­sýnum og líkams­pörtum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kári hefur boðið fram starfskrafta Íslenskrar erfðagreiningar og Sigríður Björk segir málið verða skoðað á næstu vikum.
Kári hefur boðið fram starfskrafta Íslenskrar erfðagreiningar og Sigríður Björk segir málið verða skoðað á næstu vikum.

Lögfræðingar embættis ríkislögreglustjóra skoða nú þann möguleika að Íslenskri erfðagreiningu verði falið að rannsaka lífsýni og líkamsparta sem finnast hér á landi og bera þarf kennsl á.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur gagnrýnt kennslanefnd ríkislögreglustjóra fyrir að nýta sér ekki þennan möguleika og leita þess í stað út fyrir landsteinana.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir málið til skoðunar en fundað var með Kára í fyrra, þar sem rætt var um mögulegt samstarf. Hins vegar sé nauðsynlegt að huga að persónuverndarsjónarmiðum og fleiru áður en niðurstaða fæst í málið.

„Þetta hef­ur verið rætt en það hafa ekki komið upp nein til­vik sem myndu falla und­ir þetta sam­starf frá því sam­tali,“ segir Sigríður Björk. „Við mynd­um lík­lega vilja láta reyna á það fyr­ir dóm­stól­um fyrst, hvort við mætt­um nýta þessi gögn í þess­um til­gangi. Við þurf­um að fara vel yfir þetta út frá lög­fræðileg­um sjón­ar­miðum. Við erum að fara yfir það núna hjá okk­ur.“

Sigríður segir að málið verði skoðað á næstu vikum en það liggi ekki fyrir hvort það væri endilega hagkvæmt hvað varðar tíma og fjármuni að rannsaka sýni hér heima frekar en í útlöndum.

Hún bendir á að málin séu fá og að rannsóknarstofa þyrfti vottun og fleira.

Kári hefur lýst því yfir að það muni ekki standa á Íslenskri erfðagreiningu að verða sér út um vottun og tilskilin leyfi ef áhugi reynist fyrir hendi að láta reyna á samstarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×