Á vef Veðurstofunnar segir að gera megi ráð fyrir tíu til átján metrum á sekúndu og hita á bilinu tvö til tólf stig þar sem svalast verður norðantil. Sums staðar má reikna með snjókomu á fjallstoppum.
„Kólnar heldur. Svipað veður á morgun, fimmtudag, en útlit fyrir að kólni ívið meir og næturfrost gæti orðið býsna víða,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Enn er óvissustig almannavarna í gildi vegna mikilla rigninga á Austurlandi og er talin aukin hætta á skriðuföllum á Austfjörðum og Austurlandi. Hættustig almannavarna er í gildi á Seyðisfirði vegna skriðuhættu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á fimmtudag: Norðlæg átt, 5-15 m/s og smáskúrir eða él, hvassast austast, en bjartviðri sunnan heiða. Hiti 2 til 11 stig yfir daginn, mildast syðst, en líkur á næturfrosti.
Á föstudag: Norðaustlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og stöku skúrir, en dálítil él fyrir norðan og austan. Hiti 1 til 6 stig.
Á laugardag (haustjafndægur): Fremur hæg austlæg átt og skýjað að mestu, en strekkingur syðst og dálítil rigning. Hlýnar heldur.
Á sunnudag og mánudag: Norðaustlæg átt og dálítil él á norðanverðu landinu, rigning af og til suðaustanlands, en annars léttskýjað. Fremur svalt í veðri.
Á þriðjudag: Útlit fyrir austanátt. Rigning austanlands, annars þurrt. Hiti 3 til 8 stig.