Lífið

Vissi að elti­hrellirinn kæmi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Leikaranum er margt til lista lagt og bókin hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur. Myndin var tekin á viðburðinum sem fjallað er um í fréttinni.
Leikaranum er margt til lista lagt og bókin hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur. Myndin var tekin á viðburðinum sem fjallað er um í fréttinni. Getty/McIntyre

Lögregla hafði afskipti af eltihrelli á viðburði sem leikarinn Matthew McConaughey stóð fyrir í vikunni. Leikaranum datt í hug að hrellirinn yrði til ama og sótti því um nálgunarbann áður en viðburðurinn fór fram.

McConaughey var að fagna útgáfu nýrrar bókar sinnar, Just Because, og stóð því fyrir bókaupplestri í Barnes and Nobles í Kaliforníu fyrir tæpri viku síðan. Aðdáendur gátu meðal annars freistað þess að ná mynd af sér með leikaranum. 

Eins og fyrr segir gerði McConaughey ráð fyrir því að eltihrellirinn myndi mæta á viðburðinn en slúðurmiðillinn TMZ greinir frá því að hann hafi ákveðið að krefjast nálgunarbanns til að gæta fyllsta öryggis aðdáenda.

Eltihrellirinn á að hafa valdið leikaranum ama í meira en ár. Hún hefur reglulega sent honum sérkennilega tölvupósta, óþægileg bréf og þá hefur hún einnig kært hann. Til þessa hefur McConaughey hunsað áreitið en ákvað að grípa til frekari ráða þegar hann taldi að eltihrellirinn myndi ógna öryggi annarra. 

Mirror greinir frá því að McConaughey hafi beðið lífverði sína að koma vel fram við eltihrellinn og segja henni mildilega að hann hefði ekki áhuga á því að tala við hana.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×