Innlent

Störf Markúsar og Gylfa auglýst til umsóknar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Markús Ingólfur Eiríksson og Gylfi Ólafsson hafa báðir verið forstjórar heilbrigðisstofnana síðustu fimm ár.
Markús Ingólfur Eiríksson og Gylfi Ólafsson hafa báðir verið forstjórar heilbrigðisstofnana síðustu fimm ár. Vísir/Sigurjón

Embætti forstjóra tveggja heilbrigðisstofnana hafa verið auglýst til umsóknar. Annar núverandi forstjóra hefur tilkynnt það að hann sé að hætta en hinn hefur greint frá ágreiningi við heilbrigðisráðherra. 

Um er að ræða embætti forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða (HVest). 

Greint var frá afsögn Gylfa Ólafsson, fráfarandi forstjóra HVest í byrjun mánaðar. Kom fram að Hildur Elísabet Pétursdóttir tæki tímabundið við sem forstjóri þar til nýr forstjóri tæki við.

Örlítið meira hefur gustað um stöðu forstjóra HSS síðustu mánuði. Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri HSS, kom fram í fjölmiðlum í sumar þar sem hann sakaði heilbrigðisráðherra um að fjársvelta stofnunina. Þá kvaðst hann persónulega hafa orðið fyrir óviðunandi framkomu af hálfu ráðherra. 

„Að mínu mati hefur ráðherra farið verulega út fyrir sín mörk gagnvart mér sem ég sætti mig ekki við,“ sagði Markús en vildi ekki fara nánar út í hvað átti sér stað þegar hann var spurður út í málið í júní. 

Sagði heilbrigðisráðherra síðar að samskipti sín við forstjórann hafi eingöngu verið á formlegu nótunum og kannaðist ekki við óviðunandi framkomuna. 

Skipað verður í embætti forstjóra HVest til fimm ára frá 1. febrúar 2024 og embætti forstjóra HSS frá 1. mars 2024. Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að umsóknarfrestur er til og með 16. október næstkomandi fyrir bæði störf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×