Midtjylland var fyrirfram talið mun sterkari aðilinn í þessari viðureign. Næstved höfðu heimavallarforskotið en liðið hefur spilað mjög illa á þessu tímabili og situr í neðsta sæti 1. deildarinnar eftir 10 umferðir.
Einu sigrar liðsins á þessu tímabili hafa verið í bikarnum en þar slógu þeir út BK Frem með 1-0 sigri í 1. umferð og svo utandeildarliðið Bagsværd BK 7-0 í 64-liða úrslitum.
Sverri Inga var skipt útaf í hálfleik en leikmaðurinn er að stíga upp úr meiðslum og dró sig úr landsliðsverkefnum á dögunum. Hann var í fyrsta skipti í hóp síðan 17. ágúst og hefur því ekki spilað leik í rúma tvo mánuði.
Þegar líða fór að lokum færðist hiti í leikinn og tveir leikmenn nældu sér í gul spjöld með stuttu millibili. Ungstirnið Franculino skoraði svo annað mark Midtjylland í uppbótartíma og tryggði þeim sigurinn og áframhaldandi þátttöku í bikarkeppninni.
Midtjylland fer í 16-liða úrslit og mætir annað hvort Nykøbing FC eða AGF í næstu umferð en þeirra viðureign fer fram á morgun.