Skoðun

Jóni Steinari svarað

Sævar Þór Jónsson skrifar

Föstudaginn síðasta, 29. september sl., birti ég greinarkorn undir fyrirsögninni: „Jón Steinar tekur upp hanskann“. Þar fjallaði ég m.a. um gagnrýni Jóns Steinars Gunnlaugssonar fyrrverandi Hæstaréttardómara á tilteknum fréttaflutningi RÚV. Ekki stóð á viðbrögðum Jóns Steinars við grein minni sem svaraði nánast um hæl. Hann aftur á móti fór fram úr sér í svari sínu og gerði mér upp skoðanir, sem mér þykir miður af mínum gamla kennara.

Jón dregur stórar ályktanir af litlu tilefni í svörum sínum og segir að svo virðist sem ég vilji breyta hegningarlögum á þá leið að refsa megi ósakhæfum einstaklingum vegna óskar brotaþola um það. Meiri að segja fyrrum aðstoðarmaður dómsmálaráðherra sá sig knúinn til að gera hið sama í athugasemdakerfum Facebook. Hvergi í grein minni er því haldið fram að breyta þurfi þeirri reglu að ósakhæfum einstaklingum sé ekki gerð refsing og það er fjarstæðukennt af Jóni að halda því fram að það hafi verið inntak greinar minnar.

Ég get verið sammála Jóni um það að fréttamenn þurfi að vera nákvæmari í fréttaflutningi sínum en það breytir ekki þeirri staðreynd að upplifun brotaþola, sérstaklega í kynferðisbrotamálum og viðlíka alvarlegum málum, er umhugsunarverð einkum þegar horft er til réttarstöðu brotaþola á hinum Norðurlöndunum. Að Danmörku undanskilinni þá hafa brotaþolar meiri aðkomu að meðferð sakamála, t.d. hvað varðar aðgang að gögnum, þátttöku réttargæslumanna í málsmeðferð fyrir dómi og rétt til að áfrýja málum.

Lögum um meðferð sakamála var nýlega breytt en sú lagabreyting gekk ekki nógu langt að mínu mati. Við ásamt Dönum stöndum hinum Norðurlandaþjóðunum ennþá töluvert að baki í þessum efnum. Það er mín skoðun að það sé réttmætt að vekja máls á þessu málefni. Mér finnst það bæði eðlilegt og nauðsynlegt að umræða fari fram um það hvar þessi mörk eigi að liggja, sem takmarka aðkomu brotaþola í meðferð sakamála.

Höfundur er lögmaður.


Tengdar fréttir

Svar til lög­manns

Á Vísi er í dag, 29. sept., að finna grein eftir Sævar Þór Jónsson lögmann, þar sem hann skrifar um gagnrýni, sem ég birti á fasbókarsíðu minni um daginn. Notar greinarhöfundur fyrirsögnina: „Jón Steinar tekur upp hanskann“. Er svo að skilja á honum að ég hafi verið efnislega fylgjandi niðurstöðu dómarans.

Jón Steinar tekur upp hanskann

Nú á dögunum birti Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, gagnrýni á fréttaflutning RÚV í tengslum við dóm Héraðsdóms Reykjaness í máli nokkru þar sem sakborningi var ekki gerð refsing sökum ósakhæfis.




Skoðun

Sjá meira


×