Orðrómurinn um samband Taylor Swift við Travis Kelce, leikmann Kansas City Chiefs í NFL-deildinni, heldur því áfram að magnast. Taylor mætti á leikinn í gær ásamt Ryan Reynolds, Blake Lively, Hugh Jackman og Sabrinu Carpenter.
Bandaríski slúðurmiðillinn PageSix slær því upp að Taylor hafi jafnframt sést á tali við móður Kelce í stjörnustúkunni. Segir þar að vel hafi farið á með þeim tveimur auk þess sem að Taylor hafi rætt við eiginkonur annarra leikmanna.
Þetta er annar leikur liðsins sem Taylor Swift mætir á en hún mætti einnig á leik Chiefs og Chicago Bears í lok september. Þar var hún í rauðum og hvítum Chiefs-jakka. Hvorugt hefur staðfest að þau séu í raun saman en Kelce hrósaði söngkonunni í hástert fyrir að hafa mætt á leikinn í viðtölum við fjölmiðla.
Sást koma út úr íbúð söngkonunnar
PageSix segir í umfjöllun sinni að Kelce hafi sést yfirgefa íbúð söngkonunnar í gærmorgun. Fregnir af meintu ástarsambandi þeirra hafa verið á sveimi síðan í september.
Þá viðurkenndi Kelce opinberlega að hann hefði reynt að gefa söngkonunni símanúmerið sitt. Hann lýsti því hvernig hann hefði mætt á tónleika hjá henni þegar hún mætti til Kansas.
Þar hafi hann viljað fá að hitta hana annað hvort fyrir eða eftir tónleikana. Söngkonan hafi það hins vegar fyrir reglu að hitta engan fyrir eða eftir, til þess að spara röddina, að því er bandaríski slúðurmiðillinn fullyrðir.