Skoðun

Geð­ráð eflir not­endur geð­þjónustunnar

Willum Þór Þórsson skrifar

Það eru spennandi tímar framundan og tækifærin til að bæta geðþjónustu og upplifun notenda eru rík. Mikilvægt skref í framkvæmd aðgerðaáætlunar geðheilbrigðismála 2023-2027 var stigið í síðustu viku með stofnsetningu á Geðráði sem hefur það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherra heilbrigðismála. Aðgerðaráætlunin byggir á þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem var samþykkt á Alþingi í fyrra. En víðtækt samráð ásamt notendamiðaðri og valdeflandi geðheilbrigðisþjónusta er hennar helsta leiðarljós.

Geðráði er ætlað að vera breiður samráðsvettvangur helstu haghafa um geðheilbrigðismál þar sem stjórnvöld, notendur, aðstandendur og fagfólk fjalla um málaflokkinn. Geðráð er skipað 17 aðilum þar sem fjöldi fulltrúa notenda og aðstandenda er nánast jafn fulltrúa veitenda geðheilbrigðisþjónustu, háskólasamfélagsins, stjórnvalda og annarra opinberrar þjónustu.

Starfsemi Geðráðs

Geðráði er ætlað að eiga gott samstarf við heilbrigðisráðuneytið enda setur ráðið sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir. Mun ráðið gegna mikilvægu ráðgjafahlutverki í stefnumótun málaflokksins ásamt því að halda okkur stjórnmálamönnum við efnið þegar kemur að framgangi gildandi aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum. Markmiðið er að Geðráð skili heilbrigðisráðherra árlegri skýrslu með tillögum um tilhögun verkefna næsta árs og upplýsingum um stefnu og framþróun málaflokksins.

Til viðbótar er Geðráði heimilt að stofna verkefnahópa um einstök verkefni til að höggva á hnúta sem kunna að myndast í geðheilbrigðiskerfinu og þróa þjónustuna áfram. Með þessari nálgun tryggjum við tímanlegar aðgerðir í þágu notenda sem er í forgrunni allrar ákvarðanatöku.

Sjálfstætt og ráðgefandi

Þar sem lykilhlutverk Geðráðs er að vera ráðherra heilbrigðismála til ráðgjafar er mikilvægt að ráðið vinni sjálfstætt og tryggi góða yfirsýn yfir stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi og í nágrannaríkjum okkar. Þannig stuðlar Geðráð að samfellu við faglega stefnumörkun í geðheilbrigðismálum sem nýtist til framþróunar og forgangsröðunar þjónustunnar.

Stofnun Geðráðs er langþráð og hafa notendur geðheilbrigðisþjónustu kallað eftir slíkum vettvangi í þó nokkurn tíma. Geðráð er til þess gert að styrkja alla ákvörðunartöku, þróun og umbætur geðheilbrigðisþjónustu sem eykur virði og gæði hennar fyrir notendur og aðstandendur. Markar stofnun Geðráðs því tímamót í málaflokknum og eiga fjölmargir þakkir skilið fyrir að láta það verða að veruleika.

Höfundur er heilbrigðisráðherra. 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×