Innlent

Vega­gerðin geti ekki metið upp á sitt eins­dæmi hvaða gögn eigi erindi

Atli Ísleifsson skrifar
Skúli Magnússon gegnir embætti umboðsmanns Alþingis.
Skúli Magnússon gegnir embætti umboðsmanns Alþingis. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur gagnrýnt Vegagerðina vegna athugunar hans á máli sem snýr að kvörtun sem barst vegna ráðningar í starf hjá stofnuninni. Umboðsmaður hafði þar óskað eftir tilteknum gögnum sem Vegagerðin afhenti eftir að hafa afmáð ýmsar persónuupplýsingar. Hann segir það ganga ekki að stjórnvöld meti upp á sitt einsdæmi hvort ákveðin gögn hafi þýðingu fyrir athugun umboðsmanns.

Á vef umboðsmanns Alþingis leggur hann áherslu á að til að hann geti rækt eftirlitshlutverk sitt samkvæmt lögum beri stjórnvöldum að afhenda honum þær upplýsingar sem óskað sé eftir hverju sinni. Krefja megi stjórnvöld um skýrslur, skjöl, bókanir og öll önnur gögn sem snerti mál, eftirlit eða athuganir umboðsmanns.

Fram kemur að á þetta hafi nýlega reynt vegna kvörtunar yfir ráðningu í starf hjá Vegagerðinni. Umboðsmaður hafði þar óskað eftir tilteknum gögnum sem Vegagerðin afhenti eftir að hafa afmáð ýmsar persónuupplýsingar.

„Augljóslega enga þýðingu“

Í skýringum stofnunarinnar á því hafi meðal annars komið fram að upplýsingarnar „hefðu augljóslega enga þýðingu fyrir skoðun umboðsmanns á kvörtuninni.“

„Hvað snerti gögn vegna eins umsækjanda sem hefði dregið umsókn sína til baka hefði Vegagerðin ekki talið þau hafa þýðingu fyrir athugun umboðsmanns og því ekki afhent þau.

Í bréfi sínu til Vegagerðarinnar bendir umboðsmaður á að það samrýmist illa eftirlitshlutverki hans að stjórnvöld, upp á sitt eindæmi, meti hvort og þá hvaða upplýsingar sem umboðsmaður hafi óskað eftir hafi þýðingu fyrir athugun hans. Umboðsmaður meti slíkt sjálfur og þurfi ekki að veita stjórnvöldum sérstakar skýringar á því. Einnig minnti hann á að heimildir umboðsmanns til upplýsinga- og gagnaöflunar eru ekki takmarkaðar með sama hætti og upplýsingaréttur aðila máls kann að vera.

Vegagerðinni var bent á að hafa þetta framvegis í huga í samskiptum sínum við umboðsmann,“ segir á vef umboðsmanns Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×