Ísraelsher boðaði til blaðamannafundar í morgun þar sem greint var frá þessu en talsmaðurinn Daniel Hagari sagði málið hafa verið gaumgæft innan hersins og að engar eldflaugar á vegum hans hefðu getað lent á sjúkrahúsinu.
Þá hefur utanríkisráðuneyti Ísrael birt myndskeið frá Al Jazeera sem er sagt sýna það þegar eldflauginni var skotið á loft og hvernig sprenging varð við sjúkrahúsið strax í kjölfarið. Ráðuneytið hefur einnig birt upptökur af samtali Hamas-liða, þar sem þeir ræða að um hafi verið að ræða slysaskot.
Enn er óljóst hversu margir létust og slösuðust í sprengingunni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti fundar nú með herráði Ísraels í Tel Aviv. Við komuna til landsins í morgun ítrekaði hann enn og aftur afdráttarlausan stuðning Bandaríkjanna við Ísraelsmenn og virðist jafnframt taka undir staðhæfingar um að „hinn aðilinn“ hefði átt sök á harmleiknum í gær.
Biden er engu að síður sagður munu eiga opinskátt samtal við Netanyahu um stöðu mála og framhaldið.
Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í vaktinni hér fyrir neðan. Ef hún birtist ekki strax er ráð að endurhlaða síðunni.