Tim de Wolf, aðalsaksóknari Brussel, hélt blaðamannafund í dag um mál hins 45 ára Abdesalem Lassoued, árásarmanninn sem skaut tvo til bana í Brussel.
Þar kom fram að Lassoued hefði hlotið 26 ára dóm árið 2005 í Túnis vegna ýmissa brota, þar á meðal fyrir tvær tilraunir til manndráps. Hins vegar flúði Lassoued úr fangelsinu árið 2011 og sigldi síðan til ítölsku eyjunnar Lampedusa.
Hann flakkaði síðan á milli ýmissa landa og endaði í Belgíu. Þar sótti hann um hæli en var neitað um það árið 2021. Eftir það dvaldi hann ólöglega í landinu og var á ratsjá lögreglunnar vegna gruns um ýmsa glæpi, þar á meðal mansal.
Týndu skjalinu á skrifstofunni
Á blaðamannafundinum reyndi de Wolf einnig að útskýra hvers vegna Lassoued hefði ekki verið vísað úr landi eftir að yfirvöld í Túnis óskuðu eftir framsali hans.
Skjal um framsal Lassoued barst til skrifstofu saksóknara í september á síðasta ári en svo virðist sem það hafi týnst eða gleymst í skjalaskáp. Starfsmenn saksóknaraembættisins vita sjálfir ekki hvað varð um skjalið og það eru engin merki þess að unnið hafi verið í málinu. Að sögn de Wolf átti undirmönnun á skrifstofu saksóknara þátt í máli en það afsakaði þó ekki klúðrið.
Árásarmaðurinn hafði áður búið í Svíþjóð og meðal annars setið þar í fangelsi fyrir eiturlyfjasölu. Hann hafði sótt um hæli í Noregi, Svíþjóð, Ítalíu og Belgíu en Belgar höfnuðu honum árið 2021.
Sagði af sér út af málinu
Vincent Van Quickenborne, dómsmálaráðherra Belgíu, tilkynnti afsögn sína í gær vegna þeirra mistaka að hafa ekki vísað Lassoued úr landi.
Quickenborne sagði að mistökin hefðu haft hræðilegar afleiðingar sem skrifuðust á hann og því sagði hann af sér.
Eins og hefur áður komið fram létu tveir Svíar, fótboltaaðdáendur, lífið í árásinni og einn særðist til viðbótar. Hinir látnu voru eldri karlmenn, annar á sjötugsaldri og hinn á áttræðisaldri. Annar þeirra var búsettur í Stokkhólmi en hinn bjó erlendis.