Innlent

Á íslenskum vinnumarkaði eru 55 kvár

Jakob Bjarnar skrifar
Konur eru að vígbúast fyrir samstöðufundinn á eftir. Þar sem konur og kvár munu krefjast aukinna réttinda.
Konur eru að vígbúast fyrir samstöðufundinn á eftir. Þar sem konur og kvár munu krefjast aukinna réttinda. vísir/vilhelm

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eru skráð 150 kvár á Íslandi, eða fólk sem flokkast sem kynsegin/annað.

Jafnframt er talið þar á bæ að á íslenskum vinnumarkaði séu 55 kvár.

Miðað við mannfjölda annars ársfjórðungs 2023 voru Íslendingar alls 394.200. Karlar eru fleiri eða 203.610 en konur 190.440 og svo kynsegin/annað 150.

Í tilefni kvennaverkfalls var litið til vinnumarkaðar, vinnumarkaður er greindur út frá kyni fólks. Myndin byggir á vinnumarkaðsrannsókn.

Þarna er gengið út frá því að konur séu 97.100 á vinnumarkaði, karlar 112.400 og kvár 55. Gera verður fyrirvara. Hagstofan segir að áætlað sé að af öllum starfandi hafi konur verið að jafnaði 97.100 allt árið 2022 og karlar um 112.400. „Ekki var nægjanlegur fjöldi í úrtaki vinnumarkaðsrannsóknar til að greina frekar fjölda kynsegin/annað en samkvæmt talningu úr staðgreiðslugögnum voru 55 kynsegin/annað samkvæmt þjóðskrá starfandi að jafnaði árið 2022.“

Eftirtektarvert í þessu sambandi gæti verið að samkvæmt tilkynningu sem barst frá Samkaupum í gær, sem eru Nettó, Kjörbúðirnar, Krambúðirnar og Iceland, kemur fram að þar starfi 1.446 manns. Þar af 704 konur og 8 kvár. Sem gera heil 14,5 prósent kvára á íslenskum vinnumarkaði. Ekkert liggur hins vegar fyrir um laun þessa hóps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×