Frá þessu greinir Halldór í samtali við Morgunblaðið en hann segir árásunum hafa fjölgað í kjölfar leiðtogafundar Evrópuráðsins, sem haldinn var í Reykjavík í maí síðastliðnum.
Hann segir árásirnar að mestum hluta gerðar úr tölvum með IP-tölur í Rússlandi.
Stærstu orkufyrirtæki landsins standa nú að sameiginlegri netöryggisæfingu ásamt fulltrúum Orkustofnunar, CERT-IS, almannavarna og stjórnvalda. Þá eru hér fulltrúar KraftCERT, ráðgjafarfyrirtækis sem starfar fyrir orkuiðnaðinn í Noregi.
Halldór segir að á fyrri æfingum hafi meðal annars verið æfð viðbrögð við náttúruhamförum en í ár séu netöryggismál í forgrunni.
„Við erum að spinna út frá því hvernig við eigum að bregðast við ef einhverjir óprúttnir aðilar reyna að taka yfir orkukerfin í landinu. Hvernig við getum unnið saman, deilt upplýsingum og fengið sérfræðiaðstoð sem fyrst,“ segir hann.
Ein af verstu mögulegu sviðsmyndunum sem æfðar séu sé til að mynda ef utanaðkomandi aðila tækist að ná stjórn á orkukerfum landsins.