Innlent

Guðni vann hetjudáð þegar maður hneig til jarðar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Katrín tók þessa mynd af vettvangi en þarna sést Guðni í hringiðunni sem myndaðist í Ikea í dag.
Katrín tók þessa mynd af vettvangi en þarna sést Guðni í hringiðunni sem myndaðist í Ikea í dag. Katrín Oddsdóttir

„Fallegt að sjá Guðna forseta stíga sterkt inn þegar gamall maður hneig niður í Ikea. Litla góða Ísland í hnotskurn,“ skrifar Katrín Oddsdóttir lögmaður á Facebook-síðu sína í dag.

Þar vísar hún til atviks sem átti sér stað í verslun Ikea í Garðabæ um hádegisleytið í dag.

Í samtali við Vísi útskýrir Katrín að Guðni Th. Jóhannesson, forseti lýðveldisins, hafi brugðist vel við í erfiðum aðstæðum þar sem einstaklingur féll til jarðar.

„Hann kom þarna sterkur inn og stóð yfir manninum allan tímann og var að róa fólk niður og stýra aðstæðum eins og hægt var í öllu þessu kaosi sem var í gangi,“ segir Katrín.

Hún tekur fram að á vettvangi hafi engin vitað almennilega hvernig skyldi bregðast við og því hafi komið sér vel að Guðni hafi náð stjórn á aðstæðum.

Katrín segir að það hafi ekki endilega vakið sérstaka athygli fólks að forseti Íslands væri þarna mættur að hjálpa. „Þetta var eins og að þarna væri venjulegur maður. Fólk var ekki að hugsa að þetta væri forsetinn. Enginn var að pæla í honum.“

Vísir fékk ábendingar um hádegisleytið í dag um lögreglu- og sjúkrabíla við Ikea í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×