Fótbolti

Eru Belling­ham og Kane bestu leik­­menn heims um þessar mundir?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessa tvo fær ekkert stöðvað um þessar mundir.
Þessa tvo fær ekkert stöðvað um þessar mundir. Vísir/Getty Images

Það var vissulega búist við miklu þegar Englendingarnir Harry Kane og Jude Bellingham færðu sig um set í sumar en það bjóst ef til vill enginn við því að leikmennirnir myndu finna taktinn jafn fljótt og raun ber vitni.

Síðan Bellingam færði sig frá Borussia Dortmund í Þýskalandi til spænska stórveldisins Real Madríd var planið eflaust að hann myndi taka vð keflinu hjá félagi sem hefur verið með eina bestu miðju Evrópu undanfarin ár. Að Bellingham myndi taka við keflinu strax í fyrsta leik var eitthvað sem færri reiknuðu með.

Þrátt fyrir að spila 42 leiki á síðustu leiktíð fyrir Dortmund var gefið til kynna að hann ætti við eymsli í hné að stríða og það gæti áfram hrjáð hann. Ef svo er þá hefur það ekki sést til þessa þar sem Bellingham virðist fæddur til að spila í hvítri treyju Real Madríd.

Segja má að vera hans á Spáni sé draumi líkust til þessa en hann hefur skorað hvert sigurmarkið á fætur öðru fyrir félagið. Í fyrstu fjórum deildarleikjum sínum þá skoraði hann fimm mörk: 

  • Skoraði annað markið í 2-0 sigri á Athletic Bilbao.
  • Skoraði tvö og gaf eina stoðsendingu í 3-1 sigri á Almería.
  • Skoraði sigurmark gegn Celta de Vigo á 81. mínútu.
  • Skoraði einnig sigurmark gegn Getafe á 90. mínútu.

Í Meistaradeildinni var það sama upp á teningnum:

  • Skoraði eina markið í 1-0 sigri á Union Berlín. Markið skoraði hann á 94. mínútu.
  • Skoraði eitt og lagði upp annað í 3-2 sigri á Napolí.
  • Skoraði seinna markið í 2-1 sigri á Braga.

Í dag fóru Bellingham og félagar á Nývang í Katalóníu þar sem þeir mættu erkifjendum sínum í Barcelona. Eftir að İlkay Gündoğan kom Börsungum yfir snemma leiks var komið að Jude og hans hæfileikum.

Á 68. mínútu jafnaði hann metin með ótrúlegu skoti lengst fyrir utan teig. Það var svo þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma sem hann fékk sendingu í gegnum vörn Barcelona frá Luka Modrić og tryggði Real í kjölfarið ótrúlegan 2-1 sigur. Til þessa hefur Jude Bellingham skorað 13 mörk og gefið 3 stoðsendingar í treyju Real Madríd.

Harry Kane, samherji Bellingham í enska landsliðinu, færði sig einnig um set í sumar. Kane fór frá Tottenham Hotspur til Þýskalandsmeistara Bayern München. Hafandi spilað allan sinn feril á Englandi og orðinn þetta gamall - þrítugur - þá voru ekki öll seld á að Kane myndi raða inn mörkunum í Þýskalandi. 

Hann hefur hins vegar verið einn mesti markaskorari Evrópu undanfarin ár og það kom því ekki á óvart þegar hann fór að raða inn fyrir Bayern. Hversu mörg mörkin eru, hversu glæsileg þau eru og hversu margar stoðsendingar hann hefur gefið hefur hins vegar komið á óvart.

Kane reimaði á sig markaskóna strax í fyrsta leik og hefur ekki farið úr þeim síðan. Sem stendur hefur hann spilað 13 leiki fyrir Bayern, skorað 14 mörk og gefið 7 stoðsendingar. 

Þegar þetta er skrifað eru Bellingham og Kane helstu ástæður þess að Real og Bayern eru í toppsætunum heima fyrir. Bayer Leverkusen getur þó skemmt það með sigri á morgun, sunnudag, en líkt og Bayern á liðið enn eftir að tapa leik í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×