Matteo Lepore, borgarstjóri Bologna, segir nauðsynlegt að loka Piazza di Porta Ravegnana til að bjarga turninum; það sé ekki vegna þess að hrun hans sé yfirvofandi heldur sé nauðynlegt að tryggja öryggi hans til framtíðar.
Garisenda-turninn er 48 metra hár og hallar fjórar gráður, það er lítillega meira en hinn frægari Skakki turn í Písa, sem hallar 3,9 gráður.
Örlög Garisenda-turnsins hafa verið í umræðunni síðustu misseri eftir að vísindamenn frá Bologna-háskóla námu óeðlilegar hreyfingar á turninum. Turninn, sem var reistur á 12. öld, er talinn halla vegna jarðsigs á 14. öld en nú stendur til að styrkja undirstöður hans.
Asinelli-turninum, sem stendur við hlið Garisenda-turnins, hefur einnig verið lokað en hingað til hefur gestum verið hleypt upp í fyrrnefnda.
Íbúar óttast hið versta og einn sagði í samtali við Corriere della Sera að hingað til hefði hann tekið turnunum tveimur sem sjálfsögðum hlut. „Ég óttast að missa eitthvað sem er partur af sálu borgarinnar,“ sagði rit- og handritahöfundurinn Carlo Lucarelli.
„Það er margt sem vekur áhyggjur mínar, sérstaklega sú staðreynd að þetta virðist hafa komið á óvart. En hvernig getur þetta komið á óvart ef það er búið að vera að fylgjast með turninum í mörg ár,“ segir leikarinn og leikstjórinn Giorgio Diritti.
Garisenda- og Asinelli turnarnir eru nefndir í höfuðið á fjölskyldunum sem reistu þá og áttu í mikilli samkeppni. Garisenda-turninn var upphaflega 60 metra hár en var lækkaður þegar hann fór að halla. Hann er nefndur til sögunnar í verkum Dante, Dickens og Goethe.