Segir í athugasemdinni að ráðuneytið, fyrir hönd ríkisins, megi eiga von á bótakröfum verði einhverjar takmarkandi breytingar á starfseminni.
Forsaga málsins er sú að matvælaráðuneytið tilkynnti 15. september síðastliðinn að reglugerð um blóðmerahald yrði felld úr gildi og blóðmerahald fellt undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni eftir að athugasemdir bárust frá ESA, eftirlitsstofnun EFTA.
Afstaða ESA var ítrekuð í áminningabréfi 10. mars síðastliðinn þar sem sagði að Ísland hefði brotið gegn ákvæðum tilskipunar 2010/63/EB með því að setja sérreglur um blóðmerahald. Málið snérist um túlkun á gildissviði regluverksins og féllust stjórnvöld á að blóðmerahald félli undir reglur um tilraunir á dýrum.
Í athugasemd Bændasamtakanna eru alvarlegar athugasemdir gerðar við þessa ákvörðun stjórnvalda og hún meðal annars sögð skerða atvinnufrelsi, þar sem fyrirsjáanlegt sé að fjöldi hryssa í blóðtökustarfsemi verði takmarkaður.
Meðalhófs sé ekki gætt og lagabreytinga líklega þörf þar sem regluverkið nái ekki yfir blóðmerahald.
Samtökin segja að „mikil óvissa hafi skapast um starfsemina auk þess sem ákvörðunin er líkleg til að skapa bæði íþyngjandi og ósanngjarnar afleiðingar fyrir bændur og þá starfsmenn í þeim afleiddu störfum sem koma að starfseminni“.
Blóðmerahald fari fram á 90 stöðum og blóð tekið úr um 5.000 hryssum. Umfangið gefi til kynna hversu mörg störf myndu tapast.
„Sú starfsemi sem hér um ræðir hefur verið stunduð í hartnær 50 ár og verður rakin til rannsókna frá 5. og 6. áratug 20. aldar, svo auðveldlega er hægt að rökstyðja að atvinnugreinin falli undir starfsvenjur í landbúnaði og á því reglugerð nr. 460/2017 ekki við um blóðtöku úr fylfullum hryssum,“ segir meðal annars.